Samherji styrkir Þroskahjálp
Fyrir síðustu jól tóku stjórnendur Samherja hf. ákvörðun um að senda ekki út jólakort heldur yrði andvirði þeirra notað í þágu góðs málefnis. Sami háttur verður hafður á fyrir þessi jól og mun andvirði jólakortanna renna til styrktar starfi Þroskahjálpar á Norðurlandi eystra.
Að sögn Kolbrúnar Ingólfsdóttur hjá Þroskahjálp á Norðurlandi eystra verða fjármunirnir notaðir til uppbyggingar og reksturs sumardvalarheimilis að Botni í Eyjafjarðarsveit sem félagið hefur rekið um árabil. Að Botni koma fötluð börn af Norðurlandi eystra sem að jafnaði búa í heimahúsum. Þau dvelja að Botni um skemmri tíma, sér til ánægju og skemmtunar og til að létta álagi af fjölskyldum. Þroskahjálp á Norðurlandi eystra er aðili að Landssamtökunum þroskahjálp sem er samnefnari þeirra félaga sem vinna að málefnum fatlaðra með það að markmiði að tryggja þeim fullt jafnrétti á við aðra þjóðfélagsþegna.
Sjá meira um Þroskahjálp á www.throskahjalp.is