Samherji hefur samið um smíði á nýju uppsjávarskipi við Karstensen Skipsverft í Skagen, Danmörk. Skipið sem á að afhenda um mitt sumar árið 2020 verður vel búið í alla staði, bæði hvað varðar veiðar og meðferð á afla, sem og vinnuaðstöðu og aðbúnað áhafnar.
Burðargeta skipsins verður um 3.000 tonn af kældum afurðum.
Nýsmíðin mun leysa af hólmi núverandi Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem kom nýr til landsins fyrir 18 árum. Samningar voru fullfrágengnir þann 4. september en þann dag hefðu tvíburabræðurnir Baldvin og Vilhelm Þorsteinsssynir orðið 90 ára gamlir, Baldvin lést 21. desember árið 1991 og Vilhelm þann 22. desember árið 1993.
Afmælisdagur þeirra bræðra, 4. september, hefur áður tengst stórviðburðum í sögu fyrirtækisins. Þann 4. september árið 1992 var nýsmíði Samherja, Baldvin Þorsteinssyni EA 10, gefið nafn og 3. september árið 2000 var núverandi Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 gefið nafn. Ástæðan fyrir 3. september var sú að 4. september bar upp á mánudag.
Hjátrú hefur lengi fylgt lífi sjómannsins þar sem haldið er í hefðirnar til að reyna að tryggja farsæla heimkomu og góðan afla og voru þeir bræður engin undantekning. Á tímabili þegar Baldvin starfaði sem skipstjóri þurfti hann iðulega að fara í ákveðna peysu áður en nótinni var kastað en peysuna hafði hann erft eftir mág sinn, Alfreð Finnbogason, hinn mikla aflaskipstjóra.
Samherji heldur í góðar hefðir líkt og bræðurnir Vilhelm og Baldvin gerðu. Til að mynda skulu skip ekki fara til veiða á nýju ári á mánudegi né nýr starfsmaður að hefja störf. Það er því engin tilviljun að gengið var frá samningum um smíði nýs skips á þessum degi 4. september.
Nokkrar gamlar myndir í tilefni dagsins:
Vilhelm Þorsteinsson um borð í Harðbak
Vilhelm um borð í trillunni sinni Eddu
Vilhelm og synirnir Kristján og Þorsteinn á sjómannadaginn
Baldvin liggur yfir lóðningu um borð í Súlunni EA. Myndina tók Gísli Sigurgeirsson
Nótinni kastað á Súlunni EA. Myndina tók Gísli Sigurgeirsson
Baldvin (í peysunni góðu) og áhöfnin á Súlunni EA - Loðnan skoðuð
Lára Pálsdóttir, Björg Finnbogadóttir og Baldvin á Krossanesbryggju. Myndina tók Gísli Sigurgeirsson
Bræðurnir Baldvin og Vilhelm á yngri árum
Bræðurnir Baldvin og Vilhelm í Hlíðarfjalli
Vilhelm Þorsteinsson EA 11 og Baldvin Þorsteinsson EA 10
Samningur um nýsmíði kláraður 4.september 2018