Frá aðalfundi Samherja í dag
Aðalfundur Samherja hf.:
Frá aðalfundi Samherja í dag Á aðalfundi Samherja hf., sem haldinn var fyrr í dag, var tillaga stjórnar félagsins um að greiða 30% arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2001 samþykkt samhljóða. Hér er um að ræða hæsta hlutfall sem félag á Verðbréfaþingi Íslands greiðir vegna ársins 2001.
Í ræðu sinni á fundinum vék Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, máli sínu sérstaklega að arðgreiðslunni. Hann sagði telja það nauðsynlegt fyrir félag eins og Samherja að greiða góðan arð, m.a. til þess að gera félagið að áhugaverðum fjárfestingarkosti. "Ég tel að fyrirtæki á hlutabréfamarkaði hafi ekki horft nægilega mikið til þess að greiða eigendum sínum viðunandi arð. Góður arður hluthafa af fjárfestingum eflir trú almennings á atvinnulífið í landinu og styrkir það þegar til lengri tíma er litið," sagði hann.
Reikningar félagsins fyrir árið 2001 voru samþykktir samhljóða. Þá var samþykkt tillaga um að heimila stjórn félagsins að kaupa eigin bréf að nafnvirði allt að kr. 166 milljónir króna. Heimildin gildir til næstu 18 mánaða.
Tvær breytingar á stjórn Tvær breytingar urðu á stjórn félagsins á fundinum. Þeir Arngrímur Jóhannsson og Jón Sigurðsson voru kjörnir í stjórnina í stað þeirra Hjörleifs Jakobssonar og Þorsteins M. Jónssonar. Auk þeirra voru kjörnir í stjórn félagsins þeir Finnbogi Jónsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Óskar Magnússon. Í varastjórn voru kjörnir Eiríkur Jóhannsson og Kristján Jóhannsson.
Stjórnin kom saman strax að loknum aðalfundi og skipti með sér verkum. Starfandi stjórnarformaður er Finnbogi Jónsson; varaformaður er Jóhannes Geir Sigurgeirsson; ritari Óskar Magnússon og meðstjórnendur þeir Arngrímur Jóhannsson og Jón Sigurðsson.
Fréttatilkynning frá Samherja hf. fimmtudaginn 11. apríl 2002. Nánari upplýsingar gefur Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, í síma 460 9000.
Ávarp Finnboga Jónssonar starfandi stjórnarformannsRæða Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra