Samherji hf. tók á dögunum formlega í notkun SAP X-press Mannauðslausn fyrir starfsmannahald félagsins. Það eru hugbúnaðarlausnir Nýherja sem sjá um innleiðingu á lausninni, en mannauðslausnin er hluti af nýju SAP upplýsingakerfi sem Samherji hf. er að taka í notkun.
Það var Anna María Kristinsdóttir nýráðinn starfsmannastjóri Samherja sem skráði fyrsta starfsmann fyrirtækisins inn í hið nýja kerfi. Heildarfjöldi starfsmanna Samherja hér innanlands er vel á áttunda hundrað og því ljóst að þörf á öflugu kerfi á sviði starfsmannahalds er mikil. Um er að ræða svokallaða SAP X-press Mannauðslausn frá Nýherja, og bindur Samherji miklar vonir við að hún leysi auknar kröfur félagsins í starfsmannamálum. Innifalið í lausninni er starfsmannakerfi, stjórnskipulag, ráðningarkerfi, stimpilklukka, starfsþróunarkerfi og síðast en ekki síst fullkomið launakerfi - SAP LAUN en gangsetning þess verður um næstu áramót.
Samherji og Nýherji skrifuðu í upphafi árs undir samning um kaup og innleiðingu á SAP-hugbúnaði hjá Samherja og er innleiðingin komin vel á veg. Uppsetningin gengur betur en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og er fyrirhugað að stærstur hluti SAP hugbúnaðarins verði kominn í fulla notkun um næstu áramót.
Nánari upplýsingar veita Kristján Jóhannsson, framkvæmdastj. hugbúnaðarlausna Nýherja í s. 8980079 og Guðmundur B. Guðmundsson, skrifstofustjóri Samherja í s. 460 9000