Einn af stærstu viðskiptavinum Seagold í Bretlandi er fyrirtækið T-Quality, sem sérhæfir sig í þjónustu við skyndibitastaði. Undanfarin ár hefur T-Quality haldið vörusýningar fyrir viðskiptavini sína sem og aðra þá sem vilja kynna sér þeirra vörur. Seagold Ltd, sölufyrirtæki Samherja í Bretlandi hefur tekið þátt í sýningunni undanfarin ár og sama var upp á teningnum nú.
Dagana 7. og 8. mars 2004 voru um 150 fyrirtæki að
kynna starfsemi sína á sýningunni “QuickService Catering Expo 2004”, sem haldin var í Donington á Englandi.. Bás Seagold var vel staðsettur og margir gestanna litu við. Sýndar voru myndir af skipum og afurðum Samherja, sem og fiskinn sem T-quality selur.
Gústaf Baldvinsson (fyrir miðju) í góðra vina hópi
Gestirnir fengu svo að bragða á fiski frá Samherja, á nokkrum stöðum þar sem hann var steiktur á breska vísu, þ.e. á þann hátt sem þeir framreiða „þjóðarrétt Breta”, Fish and Chips. Áhugavert var að fylgjast með, hversu vel gestir þekktu til vörumerkja samstæðunnar. Flestir þeirra sem kíktu á bás fyrirtækisins, nota að staðaldri vöru frá Samherja og dótturfyrirtækjum. Þessir kaupendur eru gjarnan tryggir sínu skipi, þ.e.vilja ávallt nota fisk frá sama framleiðanda.
Fiskur úr Akrabergi skoðaður
Þátttaka í sýningum sem þessum er nauðsynleg til að auka og viðhalda tengslum við viðskiptavinina og einnig til að sýna það sem fyrirtækið býður upp á. Alls voru það fjórir starfsmenn sem komu að þessari sýningu, bæði frá Seagold og Samherja.
Gestir að bragða á fiski úr Kiel