Seagold Ltd. á Donington Catering Expo 2005

Á hverju ári eru haldnar ýmsar sýningar sem viðkoma sjávarútvegi. Undanfarin ár hefur Samherji hf. og dótturfyrirtæki þess einna helst tekið þátt í tveimur þeirra; annars vegar bresku sýningunni “Donington Catering Expo” og hins vegar stærstu sjávarútvegssýningu heims “European Seafood Exposition”  sem haldin er árlega í Brussel...

Á hverju ári eru haldnar ýmsar sýningar sem viðkoma sjávarútvegi. Undanfarin ár hefur Samherji hf. og dótturfyrirtæki þess einna helst tekið þátt í tveimur þeirra; annars vegar bresku sýningunni “Donington Catering Expo” og hins vegar stærstu sjávarútvegssýningu heims “European Seafood Exposition”  sem haldin er árlega í Brussel.
Dagana 10. og 11. apríl sl. var dótturfyrirtæki Samherja, Seagold Ltd., sem hefur höfuðstöðvar í Hull í Bretlandi, með stóran og áhugaverðan sýningarbás á
“Donington Catering Expo” 2005. Tæplega hundrað sýningarbásar voru á svæðinu og var margt í boði fyrir gesti og þátttakendur.


Starfsfólk Samherja og Seagold. Hanna Dóra, Mike, Fjóla, Jónas og Ragna.


Hanna Dóra ræðir við áhugasaman kaupanda.



 Starfsmenn Samherja og Seagold svara spurningum gesta.

Meðal þeirra sem sækja sýninguna eru breskir kaupendur, sem kaupa og selja fisk auk annars sem viðkemur matarmenningu á Bretlandseyjum. Margir þeirra heimsóttu sýningarsvæði Seagold en fimm starfsmenn Samherja og Seagold stóðu vaktina og svöruðu spurningum gesta.

Íslenskur fiskur var í boði hjá nokkrum aðilum sem buðu gestum að bragða á þjóðarrétti Breta, “Fish and chips”, en einnig var til sýnis frosinn fiskur – eins og margir gestanna eru vanir að handfjatla. Gaman var að fylgjast með bresku börnunum þegar þau komu auga á fiskiflökin í kælinum en börnin eru greinilega ekki vön að sjá fisk í þessari mynd!

Á sýningum sem þessum staðfestist mikilvægi þess að vera í góðu sambandi við viðskiptavinina; bæði þá sem kaupa fiskinn í gámavís og þá sem láta sér nokkra kassa duga í einu. Báðir þessi hópar hafa sína skoðun á því sem verið er að gera. Ljóst var af viðtölum við viðskiptavini á sýningunni að almenn ánægja er ríkjandi á meðal þeirra með viðskiptin við Seagold/Samherja. Margir lýstu yfir ánægju sinni með nýja stærðarflokkun á ýsu- og þorskflökum sem Seagold/Samherji hafa verið að bjóða upp á og vildu fá að vita hvenær framboð á þeirri vöru yrði meira og stöðugra en nú er.