Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Seðlabanka Íslands til að greiða Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, skaða- og miskabætur fyrir að hafa gert honum sekt vegna brota á gjaldeyrisreglum. Seðlabankinn var hins vegar sýknaður af kröfum Samherja hf. í öðru máli. Þegar hefur verið tekin ákvörðun um áfrýjun þess dóms til Landsréttar.
„Niðurstaðan í mínu máli er persónulegur sigur enda staðfestir Héraðsdómur Reykjavíkur það sem ég hef haldið fram frá öndverðu. Það var enginn grundvöllur fyrir þessari sektarákvörðun Seðlabankans og sektin var ólögmæt. Þetta mál mitt snerist ekki um bæturnar sem slíkar heldur það grundvallaratriði að fá þessa röngu niðurstöðu Seðlabankans leiðrétta. Ég er því mjög ánægður með niðurstöðuna. Dómurinn í því máli sem Samherji höfðaði er hins vegar vonbrigði,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson.
Dómar í báðum málunum voru kveðnir upp í dag, eins og áður segir. Í máli sem Þorsteinn Már höfðaði gerði hann kröfu um skaða- og miskabætur þar sem Seðlabanki Íslands hefði með rannsóknum og töku stjórnvaldsákvarðana verið í vondri trú og valdið honum fjárhagslegu tjóni og miska. Héraðsdómur Reykjavíkur tók undir þau sjónarmið. Var það niðurstaða dómsins að skilyrði skaðabótaskyldu væru uppfyllt og var Seðlabankinn dæmdur til að greiða Þorsteini Má skaðabætur að fjárhæð 2.480.000 kr. auk vaxta og dráttarvaxta og 200.000 kr. í miskabætur auk vaxta og dráttarvaxta. Þá var Seðlabankinn einnig dæmdur til að greiða Þorsteini Má 1.488.000 kr. í málskostnað.
Í máli sem Samherji höfðaði krafðist fyrirtækið skaða- og miskabóta vegna húsleitar- og haldlagningaraðgerða í svokölluðu Seðlabankamáli. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfum Samherja m.a. á þeirri forsendu að fyrirtækið hafi átt að beina bótakröfum vegna húsleitar- og haldlagningaraðgerða að íslenska ríkinu samkvæmt bótareglum laga um meðferð sakamála. Þá var það niðurstaða dómsins að Samherji hefði ekki sýnt fram á að sá kostnaður, sem fyrirtækið lýsti sem tjóni, yrði rakinn til háttsemi Seðlabankans.
„Við teljum, eftir að hafa farið yfir dómsniðurstöður í báðum þessum málum, að forsendur dóms í máli Samherja séu ekki í samræmi við niðurstöðuna í mínu máli. Við höfum þegar tekið ákvörðun um að áfrýja dómi í máli Samherja gegn Seðlabankanum til Landsréttar,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson.
Nánari upplýsingar veitir:
Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is