Síldarfrysting hafin í Grindavík:

Þorsteinn EA 810 landar í Grindavíkurhöfn
Þorsteinn EA 810 landar í Grindavíkurhöfn

Skapar mun meiri verðmæti

Síldarfrysting er hafin hjá Samherja í Grindavík. Þetta er í fyrsta sinn sem síld er fryst hjá fyrirtækinu en frysting skapar mun meiri verðmæti en bræðsla. Allt að 40 manns munu starfa við frystinguna þegar hún verður komin í fullan gang.

Létt var yfir Óskari Ævarssyni, rekstrarstjóra í Grindavík, þegar haft var samband við hann fyrr í dag. „Það er virkilega gaman að hafa stigið þetta skref með frystinguna en við vorum búnir að velta því fyrir okkur um nokkurt skeið. Núna hefur afurðaverðið líka hækkað þannig að frystingin er orðin álitlegri kostur. Þetta er einnig vítamínsprauta fyrir bæjarlífið hérna í Grindavík því haustin hafa jafnan verið rólegur tími í öllu sem snýr að sjávarútveginum. Ég held því að það sé almenn ánægja með framtakið og gott að hafa þennan möguleika þegar síldin er að veiðast hér fyrir sunnan land," segir Óskar.

Afköstin um 200 tonn á sólarhring

Að sögn Óskars er stefnt á að vinna úr um 200 tonnum á sólarhring þegar vinnslan verður komin á fullt skrið. „Við höfum verið að vinna úr góðum 100 tonnum þessa fyrstu daga. Þetta er ágætis síld en frekar smá þannig að þegar við fáum stærri síld þá aukast afköstin. Þar sem bræðslan er ekki í gangi höfum við getað nýtt mannskapinn þar í löndun og flokkun þannig að þetta er að koma ágætlega út." Hann segist búast við að frystingin standi fram til loka janúar en þá taki loðnuvertíðin væntanlega við. „Heildarkvótinn í síldinni er stærri núna en síðast þannig að menn verða að halda vel á spöðunum ef hann á allur að nást. En byrjunin lofar góðu," segir Óskar.