Síldarvinnslan og Samherji stærstu eigendur nýs fiskeldisfélags

Nýir eigendur hafa komið að fiskeldisfélaginu AGVA ehf. og gengið í lið með þeim sem áður stóðu að félaginu. Jafnframt hefur hlutafé félagsins verið stóraukið og nafni þess breytt. Hið nýja félag ber nafnið Sæsilfur hf. og nemur hlutafé þess í upphafi 100 milljónum króna. Eigendur eru fjórir, þ.e. Síldarvinnslan hf. og Samherji hf. með 35% hlut hvort félag, Anna Katrín Árnadóttir og Guðmundur Valur Stefánsson með 20% hlut og Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. með 10% hlut. Félagið hyggst hefja sjókvíaeldi í Mjóafirði og er umsókn þess efnis nú til meðferðar í stjórnkerfinu. Framkvæmdastjóri Sæsilfurs er Guðmundur Valur Stefánsson.