Dagana 6.-8. maí sl. tók Samherji hf. þátt í sjávarútvegssýningunni, European Seafood Exhibition, í Brussel, sem er langstærsta og mikilvægasta sjávarútvegssýning sem haldin er í Evrópu.
|
Eins og undanfarin ár var Samherji hf. með aðstöðu á sýningarbás Hussmann & Hahn GmbH enda eru báðir aðilar mjög ánægðir með þá samvinnu.
Samherji er alþjóðlegt fyrirtæki með viðskiptavini um allan heim og er sýning sem þessi kjörin vettvangur til að styrkja tengslin við viðskiptavinina, ásamt því að mynda ný tengsl. Að auki gefst kostur á að fylgjast með framförum í greininni, sem er afar mikilvægt.
Fyrir sýninguna höfðu menn nokkrar áhyggjur af dræmri þátttöku, fyrst og fremst vegna lungnabólgufaraldursins HABL (SARS). Að vísu var þátttakan minni en undanfarin ár en samt sem áður var þar samankominn stór hluti sjávarútvegsgeirans í Evrópu, ásamt fjölda fulltrúa frá öðrum heimsálfum. Til marks um hversu mikill áhugi er fyrir sýningunni á Íslandi, þá fór fullsetin leiguvél, með bæði þátttakendur og gesti innanborðs til Brussel u.þ.b. 180 manns. Það var samróma álit manna að sýningin hafi í alla staði heppnast mjög vel .