„Sjávarútvegurinn er spennandi atvinnugrein“

Ingibjörg Aradóttir sölufulltrúi hjá Ice Fresh Seafood. Hun segir starfið skemmtilegt og fjölbreytt,…
Ingibjörg Aradóttir sölufulltrúi hjá Ice Fresh Seafood. Hun segir starfið skemmtilegt og fjölbreytt, alltaf sé í gangi innan fyrirtækisins þróun og verið að fást við nýjungar af öllu tagi sem spennandi sé að fylgjast með. / Ljósm.: Sindri Swan/samherji.is

„Það gefur auga leið að enginn endist í sama starfinu vel yfir þrjá áratugi nema það veiti gleði og fólk hafi gaman af,“ segir Ingibjörg Aradóttir sölufulltrúi hjá Ice Fresh Seafood, sem er félag um sölustarfemi Samherja og annast sömuleiðis sölu afurða annarra framleiðenda.

Hún hefur starfað við sölu á afurðum fyrirtækisins í 34 ár, hóf störf í júlí árið 1990, „á þriðjudegi ef ég man rétt, því hér byrjar enginn á mánudögum,“ segir hún og vísar til þess að hjátrú er gjarnan rík innan sjávarútvegsins. Fyrirtækið hefur tekið stakkaskiptum frá því hún hóf störf, örfáir starfsmenn voru á skrifstofu félagsins á þessum tíma. „Ég held við höfum verið þrjú eða fjögur fyrir utan eigendurna.“

Viðtalið birtist í blaðinu Sóknarfæri og er hér birt með góðfúslegu leyfi ritstjóra blaðsins.

Ingibjörg, Inga eins og hún er ævinlega kölluð ólst upp á Akureyri. Hún hélt til náms í Reykjavík að loknu stúdentprófi árið 1981, fór í uppeldisfræði við Háskóla Íslands og stefndi á að verða kennari. „Ég var einstæð móðir með ungan son og eins og títt er voru blankheitin alsráðandi. Endalaus leit að leiguíbúðum og sífellt verið að færa sig á milli eftir því hvar íbúð bauðst hverju sinni og drengurinn að skipta um skóla svo að segja á hverju hausti.

Sá ekki fyrir sér að fá vinnu við hæfi fyrir norðan

„Einhverju sinni þegar þessi staða var eina ferðina enn uppi á teningnum spyr mamma hvort ekki sé betra að flytja bara aftur norður,“ segir Inga, en henni leist ekki alls kostar á slíkar hugmyndir. Sá ekki fyrir sér að fá vinnu við hæfi. „Ég nefndi við mömmu að ég ætlaði ekki að fara að vinna í kjörbúð hjá KEA!“ segir hún, en velti þó stöðunni vel fyrir sér og sá að vissulega yrði minni barningur fyrir einstæða móður að búa norðan heiða með sterkara bakland.

Ein vinkvenna hennar starfaði á þessum tíma hjá Samherja. Vegna aðstæðna í fjölskyldunni sá hún fram á að þurfa að hætta, en benti Ingu á að sækja um sitt starf.

„Ég gerði það, fékk stöðuna og hef verið hér síðan,“ segir hún.

Heilmargt breytist á ríflega þremur áratugum og segir Inga að fyrirtækið hafi vaxið jafnt og þétt og sé allt annað en ‏‏það var á fyrstu árunum. Starfið hafi líka breyst í áranna rás og er harla ólíkt því sem var. Sárafáir unnu á skrifstofunni sem dæmi og nefnir hún að gengið hafi verið í öll störf sem inna þurfti að hendi.

Faxtækin voru bylting

„Helsta breytingin er sú að flest er orðið rafrænt í dag, við náum svo að segja að klára flest öll mál í gegnum tölvu, sem áður þurfi að leysa með öðrum hætti,“ segir hún.

Meðal annars hafi hún gjarnan farið í banka, í tollinn eða til sýslumanns til að sinna sínum störfum, oftar en ekki með mikið magn pappíra í fórum sínum. Alls konar skjöl fylgdu með þegar kom að sölu afurða sem dæmi og þau þurfti að meðhöndla með viðeigandi hætti.

„Samskiptin voru öðru vísi áður fyrr, en þá sinnti maður erindum með því að fara út og tala við fólk, það var ósköp notalegt,“ segir hún.

Farsímar voru vart komnir til sögunnar og faxtæki voru að ryðja sér til rúms sem mikil nýjung.

„Það þótti alveg frábært að geta sent skjöl með faxi á milli landshluta og jafnvel milli landa. Það eru mikil verðmæti í húfi þegar kemur að sölu afurða og því mikið lagt upp úr að öll pappírsvinna sé rétt og gangi snurðulaust fyrir sig,“ segir Inga.

Hún rifjar upp að á fyrstu árum sínum í starfi og áður en tækninýjungar höfðu komið fram var hún einhverju sinni send með verðmæt frumgögn í flugi til Kaupmannahafnar – flaug með gögnin þangað fráReykjavík , afhenti þau á Kastrupflugvelli og flaug síðan til baka samdægurs.

„Það var mjög mikilvægt að koma þessum pappírum á leiðarenda og þetta var í það skiptið eina færa leiðin,“ segir hún og bætir við að lífið nú þegar allt er stafrænt og engu skiptir hvar í heiminum fólk er statt, sé annars konar og einfaldara að mörgu leyti. „Vinnuumhverfið er allt annað og mun þægilegra.“

Frábært tækifæri að starfa í Hull

Inga starfaði í tæpt ár á söluskrifstofu fyrirtækisins Seagold sem Gústaf Baldvinsson stofnaði í bresku borginni Hull og segir það hafa verið mikilvæga og góða reynslu. Þetta var á árunum 1996 til 1997 og sá Seagold um að selja afurðir frá Samherja á markað í Bretlandi.

„Ég var í fyrstu fengin að láni, svona á meðan verið var að starta þessu og átti að vera nokkrar vikur í mesta lagi. Þegar upp var staðið varð þetta tæpt ár. Það var mjög spennandi að starfa í þessu umhverfi og læra inn á það en Bretland er mikilvægur og stór markaður fyrir okkar afurðir. Það var því mjög gaman að vera í hringiðunni þar og kynnast þessu umhverfi af eigin raun,“ segir hún en borgin hafði á þeim tíma gengið í endurnýjun lífdaga og uppbygging í gangi. „Pabbi, sem var togarasjómaður, var mjög tortryggin þegar ég sagðist vera á leið til Hull og fullyrti að enginn staður á jarðríki væri ógnvænlegri en Hull, nema ef vera skyldi Grimsby.“

Kaupendur í Bretlandi áttu sín uppáhaldsskip að sögn Ingu og vildu fyrir alla muni fá fisk frá ákveðnum skipum og þótti hann af einhverjum ástæðum bestur.

„Fyrstu sjófrystitogararnir, eins og Akureyrin, Hjalteyrin, Margrét og Víðir voru mjög farsæl, veiddu vel og afurðirnar þóttu afbragð, þannig að það má segja að slegist hafi verið um fiskinn úti í Bretlandi þar sem m.a. er rík hefð fyrir að borða fisk og franskar.“

Söludeild Samherja hefur vaxið að umfangi í takt við aukin umsvif, fleiri skip og aukinn afla. Til deildarinnar, Ice Fresh Seafood var stofnað árið 2007 og starfa nú um 20 manns á Akureyri auk þess sem fyrirtækið er með starfsemi víða um heim.

Miklar kröfur um gæði. Samvinna lykilatriði

Inga hefur undanfarið einkum starfað við að selja uppsjávarafurðir, loðnu, síld og markíl sem fara að stórum hluta til landa í austanverðri Evrópu.

„Það hefur orðið mikil uppbygging á liðnum árum í sölu á uppsjávarafurðum til Austur-Evrópulanda, Úrkarínu, Hvíta-Rúsalands og Póllands og mín verkefni í dag eru mikið tengd sölu á þeim afurðum. Það er mikil þekking innan söludeildar, margir sem hér starfa hafa langa starfsreynslu að baki,“ segir hún og bætir við að Ice Fresh Seafood hafi á liðnum árum náð góðum árangri í markaðssetningu fjölbreyttra sjávarafurða víða um heim. Þannig sé fyrirtækið leiðandi í sölu á frosnum og ferskum bolfiskafurðum í Bretlandi og á meginlandi Evrópu. Umtalsvert magn afurða félagsins úr fiskeldi fari á markaði í Bandaríkjunum.

„Það er verið að selja fisk um allan heim og við erum með okkar viðskiptavini mjög víða,“ segir hún og bætir við að Asíumarkaður sé stór og fyrirtækinu mikilvægur. Hver og einn er að sinna sínu og við leitumst við að fylgjast sem best með því hvað er að gerast á hverjum markaði og í hverri tegund. Til þess að ná árangri er samvinna lykilatriði, sem gerir starfið skemmtilegt og gefandi.“

Miklar framfarir hafa orðið hvað varðar meðferð afla og vinnslu afurða og segir Inga ólíku saman að jafna þegar kemur að þeim afurðum sem voru á boðstólum fyrir 30 árum og þeim sem nú eru í boði.

„Það hafa orðið gríðarlegar framfarir á öllum sviðum og við bjóðum upp á mikil gæði. Íslenski fiskurinn er vissulega vinsæll en samkeppnin er mikil og við þurfum alveg að hafa fyrir hlutunum, það eru miklar kröfur gerðar á mörkuðum þegar kemur að gæðum,“ segir hún.

Sýningar mikilvægar

Inga sótti alþjóðlegu sjávarútvegssýninguna í Barcelona nýverið og segir slíkar sýningar hafa mikið gildi fyrir fyrirtæki í greininni. Hún hefur sótt 17 sýningar í Brussel þar sem þessi sýning var áður, en fyrir fáum árum var hún færði til Barcelona.

„Þessar sýningar eru alltaf skemmtilegar, það er gaman að fá tækifæri til að sækja þær og fylgjast með straumum og stefnum. Mikilvægast er þó að hitta okkar viðskiptavinir í eigin persónu, það er algjörlega ómetanlegt að efla tengslin og treysta böndin. Við förum yfir málin, spyrjum gjarnan hvort við getum gert eitthvað betur því innan fyrirtækisins er mikill metnaður til að gera eins vel og kostur er á öllum sviðum. Þrátt fyrir alla tæknina er staðreyndin sú að mannleg samskipti eru nauðsynleg,“ segir hún.

Afhendingaröryggi

“Stundum er sagt að íslenski fiskurinn selji sig sjálfur og vissulega er um að ræða gæðavöru. Við megum hins vegar ekki gleyma ‏því að við erum að keppa við aðra matvælaframleiðendur um hillupláss á hörðum alþjóðlegum neytendamarkaði. Krafan í dag er að neytendur geti alla daga ársins gengið að vörunni sem vísri í hillum stórmarkaða. Þess vegna er svo mikilvægt að afhenda vöruna á tilsettum tíma, allan ársins hring. Ef við getum ekki uppfyllt þessar kröfur markaðarins, missum við einfaldlega af lestinni. Þegar upp er staðið er það neytandinn sem ræður ferðinni, það er bara svo einfalt. Þetta vill stundum gleymast í umræðunni um íslenskan sjávarútveg,“ segir Inga.

Krefjandi starf en hefur gefið mér mikið

Starfið segir hún skemmtilegt og fjölbreytt, alltaf sé í gangi innan fyrirtækisins þróun og verið að fást við nýjungar af öllu tagi sem spennandi sé að fylgjast með. Margar hafi gefið góða raun og fleygt fyrirtækinu fram á við.

„Eigendur Samherja eru afskaplega framsýnir og fylgjast vel með. Þeir eru að mörgu leyti frumkvöðlar og það er virkilega gaman að fá að vera þátttakandi í þessu ævintýri. Starfið er krefjandi en það hefur gefið mér mikið, þegar ég lít til baka þá er ég ánægð með að hafa valið þetta starf og þetta fyrirtæki. Það er góður starfsandi hér og starfsmannaveltan litil sem segir sína sögu um að vel er hugsað um starfsfólkið,“ segir Inga sem mælir með að ungt fólk horfi til þeirra fjölbreyttu tækifæra sem bjóðast innan sjávarútvegs þegar það fer að huga að framtíðarstörfum sínum.

"Ég segi hiklaust að sjávarútvegurinn sé mest spennandi atvinnugreinin hér á landi og er miklu meira en bara fiskur, sem sést best á fjölda íslenskra nýsköpunarfyrirækja sem litið hafa dagsins ljós á undanförnum árum. Greinin er í hraðri þróun og staðreyndin er að íslenskt hugvit og hátækni leika stórt hlutverk í þessari undirstöðu atvinnugrein okkar Íslendinga.“