Í dag eru nákvæmlega sjö ár frá því að Seðlabanki Íslands, með fulltingi fjölmiðla, réðist í húsleit hjá Samherja. Samhliða sendi bankinn fréttatilkynningu út um allan heim um húsleitina og nafngreindi Samherja, í þeim eina tilgangi að skaða fyrirtækið og auka fælingarmátt gjaldeyrishaftanna. Eftir skoðun sérstaks saksóknara, skattrannsóknarstjóra, dómstóla, bankaráðs seðlabankans og umboðsmanns Alþingis er ljóst að ekkert hæft var í ásökunum bankans auk þess sem stjórnsýsla bankans er í molum.
Frá þessum örlagaríka degi hefur Seðlabanki Íslands, með seðlabankastjóra í broddi fylkingar ítrekað gengið í skrokk starfsmanna Samherja með röngum sakargiftum og ekki slegið af þó sýnt sé fram á hið gagnstæða.
Á þessum tímamótum tel ég því rétt að rifja upp upphafið að þessari herferð bankans sem vonandi mun taka enda með afgreiðslu forsætisráðherra sem vænta má fljótlega.
Órökstuddur grunur
Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að seðlabankastjóri hefur nú í tvígang staðfest opinberlega að hann hafi ekki haft rökstuddan grun um brot þegar bankinn ákvað að fara í húsleit hjá Samherja. Sakamálalögin eru skýr og afdráttarlaus um að skilyrði húsleitar er rökstuddur grunur. Að öðrum kosti er húsleit ekki heimil. Lögin eru einföld um þetta efni og því ljóst að seðlabankinn blekkti dómstóla vísvitandi til að veita sér húsleitar- og haldlagningarheimildir. Rétt er að halda því til haga að undir húsleitarkröfuna rituðu Arnór Sighvatsson, þáverandi aðstoðarseðlabankastjóri, og Ingibjörg Guðbjartsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits bankans og lögfræðingur. Rannveig Júníusdóttir, núverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlitsins sem einnig er lögfræðingur flutti málið fyrir héraðsdómi.
Það eru þung orð að ásaka einhvern um blekkingar og því tel ég rétt að birta kröfugerð Seðlabanka Íslands og þau gögn sem fylgdu henni. Þeir sem stóðu að þessari kröfugerð voru hámenntaðir lögfræðingar og doktorar í hagfræði. Langskólagengið fólk sem veit hvað það var að gera. Annað er útilokað. Þetta get ég ekki talið annað en grófa misnotkun valds sem á að svara með því að láta þetta sama fólk axla ábyrgð.
Rangt reiknað
Þá tel ég einnig rétt að birta tölvupóst fyrrum framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins dags. 18. ágúst 2017, en þar staðfesti hann að það væri óumdeilt að útreikningarnir sem seðlabankinn byggði á í héraðsdómi til að fá húsleitarheimild, voru rangir. Sá sem bar ábyrgð á þessum útreikningum var Arnór Sighvatsson sem nú lætur sér hugkvæmast að sækja um stöðu seðlabankastjóra.
Ég læt hér jafnframt fylgja gögnin sem Rannveig Júníusdóttir lagði fram fyrir héraðsdóm og rökstuddi ranglega að uppfyllt væru skilyrði sakamálalaga fyrir því að Seðlabanki Íslands fengi húsleitarheimild.
Þá vil ég sérstaklega benda á að kröfugerðinni var á sínum tíma beint að meðal annars fyrirtækjum sem hvorki áttu gjaldeyrisreikninga eða stunduðu viðskipti við útlönd eða fisksölu af neinu tagi. Þá náði krafan einnig til nokkurra fyrirtækja sem hafa aldrei tengst Samherja á nokkurn hátt. Eitt þeirra þriggja var félagið Stocznia Gdynia sem var á þessum tíma í slitameðferð og í eigum pólska ríkisins. Væri forvitnilegt ef seðlabankastjóra yrði gert að standa skil á því hvernig þessi félög rötuðu í kröfugerðina og hvaða grunur, rökstuddur eða ekki, beindist að þeim.
Stjórnendur Seðlabanka Íslands hafa aldrei geta viðurkennt að þau hófu þetta mál á röngum forsendum og hafa reynt að halda lífi í málinu og ásökunum í sjö ár og þannig aukið ranglega og vísvitandi skaðann. Sú staðreynd að það tók Hæstarétt ekki nema tvo daga að staðfesta niðurfellingu stjórnvaldssektarinnar með sex orðum sýnir að ákvörðun Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, og Sigríðar Logadóttur, yfirlögfræðing bankans, um áfrýjun var eingöngu tekin með það að markmiði.
Þorsteinn Már Baldvinsson