Margrét EA-710 hefur verið á grálúðuveiðum og landaði miðvikudaginn 29. maí en hafði áður landað hluta aflans. Samtals varð afraksturinn rúm 382 tonn af frystum afurðum eftir 30 daga veiðiferð að verðmæti 108,5 milljónir króna.
Björgvin EA-311 hefur einnig verið á grálúðuveiðum og kom til löndunar miðvikudagskvöldið 29. maí úr 40 daga veiðiferð en hafði áður landað hluta aflans. Samtals varð afraksturinn 494 tonn eftir 40 daga og aflaverðmætið 142,5 milljónir króna.
Akureyrin EA-110 kemur í land á laugardagsmorgun en skipið hefur verið á úthafskarfaveiðum frá því um miðjan apríl og er nú að koma úr sinni annarri veiðiferð. Akureyrin landar á laugardag 335 tonnum af úthafskarfa eftir 17 daga veiðiferð að verðmæti 55 milljónir króna.
Víðir EA-910 kemur einnig í land á laugardagsmorgun af úthafskarfamiðum úr sinni annarri veiðiferð. Afraksturinn úr þessari seinni veiðiferð er 473 tonn eftir 24 daga að verðmæti 75 milljónir króna.
Oddeyrin EA-210 landaði á Þórshöfn á fimmtudag 720 tonnum af síld úr norsk-íslenska stofninum.
Hjalteyrin EA-310 landaði 50 tonnum af karfa á fimmtudagsmorgun en skipið hefur aðallega verið á karfaveiðum og hefur að jafnaði landað einu sinni í viku. Aflinn fer að stærstum hluta á erlendan markað.
Ísfisktogararnir sjá frystihúsunum fyrir hráefni
Kambaröst SU-200 er væntanleg til Stöðvarfjarðar í dag, föstudaginn 31. maí, en skipið landaði tæpum 90 tonnum, aðallega þorski, sunnudaginn 26. maí.
Björgúlfur EA-310 landaði fyrir rúmri viku 70 tonnum, aðallega þorski og karfa. Björgúlfur er væntanlegur í land á Dalvík á laugardagsmorgun.
Björgúlfur og Kambaröst hafa að jafnaði landað einu sinni í viku, blönduðum afla en þó aðallega þorski, og hafa séð frystihúsunum í landi fyrir hráefni.