|
Vilhelm Þorsteinsson EA 11 kom inn til Akureyrar með fullfermi eða tæp 600 tonn af frosnum síldarflökum. Baldvin Þorsteinsson EA 10 og Akureyrin EA 110 komu einnig inn til Akureyrar í vikunni sem leið og lönduðu grálúðu. Afurðir þessa þriggja skipa fóru beint yfir í flutningaskip sem flytur þær á markað í Evrópu.
Björgvin EA-311 hefur verið á ísfiskveiðum og kom til löndunar á Seyðisfirði með 80 tonn eftir þriggja og hálfs sólarhrings veiðiferð. Fyrr í vikunni hafði verið landað 115 tonnum af blönduðum afla eftir 5 daga veiðiferð. Björgúlfur EA 312 er einnig á ísfiskveiðum og lá hann við bryggju á Stöðvarfirði um helgina. Tvær síðustu landanir Björgúlfs voru samtals 143 tonn. Víðir EA-910 kom til Grindavíkur fyrir helgina af úthafskarfamiðum með um 420 tonn. Hið færeyska Akraberg FD kom inn til löndunar í Reykjavík með 358 tonn eftir 20 daga úthafskarfaveiðar.
Skipin koma til með að leysa landfestar eitt af öðru í dag og næstu daga.
|
Sjómenn af Samherjaskipunum tóku virkan þátt í hátíðarhöldum Sjómannadagsins og voru sigursælir. Áhöfn Baldvins Þorsteinssonar sigraði fótboltamótið og áhöfn Vilhelms Þorsteinssonar bar sigur úr býtum í róðrarkeppni karla. Sérstaka athygli vakti glæsileg sveit Þokka, félags kvenna á skrifstofum Samherja sem tefldi fram róðrarliði í fyrsta sinn. Þær biðu naumlega lægri hlut fyrir kvennasveit Brims en stefna að sjálfsögðu á sigur að ári reynslunni ríkari.
Fjölmenni var á Sjómannadagsballinu, sem haldið var í Íþróttahöllinni um kvöldið og voru Samherjamenn að vonum áberandi við verðlaunaafhendingarnar. Sjómannadagsráð Akureyrar heiðraði Árna V. Þórðarson skipstjóra Baldvins Þorsteinssonar EA, Þorstein Má Baldvinsson forstjóra og Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóra, fyrir frækilega björgun skipsins í mars sl.