Skilningsleysi og rangtúlkanir þingmanns Samfylkingar

-Yfirlýsing frá Þorsteini Má Baldvinssyni

Í gærkvöld boðuðu bæjaryfirvöld á Akureyri ásamt Samtökum atvinnurekenda á Akureyri og Verkalýðsfélögunum í Eyjafirði til opins fundar í Menningarhúsinu Hofi til að ræða áhrif breytinga í sjávarútvegi á annan atvinnurekstur og þjónustu í Eyjafirði. Fundurinn var vel sóttur (um 250 manns), framsöguerindin upplýsandi og umræðurnar á eftir ekki síður athygliverðar.

 

Sigmundur Ernir gerir lítið úr fundarboðendum

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, bloggaði um fundinn, bæði fyrir og á eftir. Í báðum bloggfærslum sínum fer hann mikinn.

Í fyrri bloggfærslunni segir hann m.a.: "Held norður í höfuðstaðinn til að sitja fund um sjávarútvegsmál í Hofi. Til fundarins boðar Akureyrarbær, að því er virðist vegna þrýstings frá Samherjamönnum, sem hafa mikla hagsmuni af því hvernig stjórn fiskveiða er hverju sinni." (Tilvitnun lýkur).

Hér gerir þingmaðurinn lítið úr þessum fundi fyrirfram, og vísvitandi. Hann opinberar skilningsleysi sitt á þýðingu sjávarútvegs fyrir Eyjafjarðarsvæðið. Þar er ekki bara Samherji; þar eru Slippstöðin, Frost, Vélfag og fjöldi annarra fyrirtækja, stórra og smárra, sem tengjast sjávarútvegi með ýmsum hætti. Sjávarútvegurinn er ein meginstoð eyfirsks atvinnulífs. Ég upplýsi þingmanninn hér með um þá staðreynd og frábið mér skot hans um þrýsting af hálfu Samherja. Með því gerir hann lítið úr fundarboðendum, m.a. bæjarfulltrúunum á Akureyri og verkalýðshreyfingunni, fundinum sjálfum og öllum þeim sem fundinn sóttu. (sjá viðtal hér við Eirík B. Björgvinsson bæjarstjóra um fyrirhugaðan fund á sjónvarpsstöðinni N4).


Helstu atriði ræðu minnar

Að fundi loknum bloggaði Sigmundur Ernir m.a. á þessa leið: "Það sló í brýnu milli Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, og þingmanna Samfylkingarinnar á fundi um sjávarútvegsmál á Akureyri í gærkvöld. Hundruð fundargesta fylgdust með feikilegum reiðilestri Þorsteins sem fann stjórnvöldum allt til foráttu, eins og útgerðarmanna er siður þessa dagana - og hjólaði svo í nafngreinda menn undir lok ræðunnar svo þakið á Hofi lyftist." (Tilvitnun lýkur).

Það kemur e.t.v. úr hörðustu átt þegar Sigmundur Ernir talar um fúkyrðaflaum og vissulega er lýsing hans af fundinum allt annað en jarðbundin. Hún er í annan stað í meginatriðum röng.

Hér er að finna þær glærur sem ég varpaði upp á fundinum í gærkvöld máli mínu til stuðnings.

  • Ég benti á að Samherji hefur ekki sótt sér viðbótar aflamark í íslenskri fiskveiðilögsögu á þessari öld. Á þessu tímabili hefur störfum í sjávarútvegi á fáum stöðum fækkað meira en einmitt hér á Eyjafjarðarsvæðinu. Þá benti ég á að aflamark í þorski hjá aflamarksskipum hefði minnkað úr 188 þúsund tonnum á árinu 2004 í 113 þúsund tonn 2009. Á sama tíma hefði orðið afkastaaukning í fiskvinnslunni. Þannig að vegna þess og aflaminnkunar hefði að sjálfsögðu orðið veruleg fækkun starfa.
  • Ég minnti á að Samherji er stærsti atvinnurekandinn á Eyjafjarðarsvæðinu, að Sjúkrahúsinu og Akureyrarbæ frátöldum. Ég sagði að á síðasta ári hefði Samherji greitt vegna starfsmanna sem búsettir eru á Eyjafjarðarsvæðinu um 3.900 milljónir króna í laun og launatengd gjöld, keypt vörur og þjónustu fyrir um 2.400 milljónir og veitt styrki til samfélagsverkefna upp á 80 milljónir króna. Samtals eru þetta 6.400 milljónir króna.
  • Ég ræddi um margfeldisáhrifin af starfseminni. Nú eru 16 ár liðin frá því Samherji kom með fyrsta erlenda stórverkefnið í Slippinn á Akureyri. Við erum stoltir af því að hafa tekið virkan þátt í uppbyggingu Slippsins, Frosts og fleiri fyrirtækja hér og auðveldað þeim að fá til sín verkefni.
  • Ég skilgreindi virðisauka starfseminnar, sem liggur m.a. í markaðsstarfinu.
  • Ég vék nokkrum orðum að evrópskum sjávarútvegi og tala af reynslu þegar ég fullyrti að stjórnendur þar á bæ leyfi sér ekki að tala svona niður til þeirra sem starfa í sjávarútveginum eins og núverandi stjórnvöld hafa gert hér og gera sem aldrei fyrr um þessar mundir.
  • Ég ræddi um norskan sjávarútveg og bar hann saman við íslenskan sjávarútveg, en Norðmenn eru í mikilli samkeppni við okkur Íslendinga á öllum helstu mörkuðum. Ég lýsti þeirri skoðun minni að við værum þeim fremri enn sem komið er en að það kynni að breytast innan skamms. Meginástæðan er sú að norskur sjávarútvegur nýtur margfalt meiri stuðnings stjórnvalda. Samfylkingarmenn stjórna í Noregi en þeir sýna sjávarútveginum fullan skilning og stuðning, öfugt við flokkssystkin þeirra á Íslandi.
  • Ég minnti á að við Íslendingar eigum mjög mikið af hæfu og vel menntuðu starfsfólki í sjávarútveginum. Margir úr þessum hópi eru orðnir þreyttir á því að starfa hér heima þar sem þeir njóta sjaldan sannmælis. Hér er endalaust talað niður til þessa fólks. Þetta fólk veit að það er velkomið annað. Norðmenn myndu til dæmis taka mörgu af þessu fólki opnum örmum og vilja fá það í vinnu í samkeppni við okkur Íslendinga.
  • Ég talaði um samskipti; Ég sagði að samskipti við stjórnvöld væru hins vegar lítil sem engin - ekki af því að við vildum ekki halda uppi góðum samskiptum, heldur væri áhuginn þeirra megin enginn. Ég minnti menn á að það kostaði ekkert að spyrja - en það gera stjórnarliðar ekki hvað varðar sjávarútveginn.
  • Ég nefndi nokkur dæmi um alvarlegar rangfærslur þeirra, m.a. 8 milljarða króna eignir sjávarútvegsins erlendis sem urðu að 800 milljörðum inni á þingi. Ég nefndi grein eftir varaþingmann Samfylkingar sem talaði um meint arðrán upp á 65-130 MILLJARÐA króna í tengslum við makrílveiðar Íslendinga en sú grein var að öllu leyti gersamlega út úr korti og laus við öll raunveruleikatengsl. Í framhaldi af því sagði ég að þetta væri kannski eins og með ísbirnina og Ólínu Þorvarðardóttur um árið. Svo birti ég mynd af hinu fræga ísbjarnarbúri sem íslensk stjórnvöld pöntuðu frá Danmörku og leigðu flugvél til að flytja hingað. Sem sjá má á glærunni er kannski ekki að furða þótt Danir séu enn að hlæja að okkur vegna þessa!
  • Ég talaði um sölustarfsemi Samherja og tengdra fyrirtækja í Afríku en þau eru umtalsverð og fara vaxandi. Ég sagði að það væri ekki sjálfgefið að fyrirtæki sem selji á mörkuðum í Afríku sé með aðsetur á Íslandi. Við höfum samt sem áður kosið að standa svo að málum.

Og þar með er innlegg mitt í fundinn upptalið í stórum dráttum.


Vilja einoka umræðuna

"Sannleikanum verður hver sárreiðastur," segir máltækið. Þingmaðurinn Sigmundur Ernir sýnir með bloggfærslum sínum, fyrir og eftir þennan ágæta fund, að sumir þingmenn Samfylkingarinnar eru ákveðnir í því að líða engum að setja fram skoðanir sínar, ef þær ganga gegn þeirra eigin. Þeir vilja einoka umræðuna um sjávarútvegsmálin og þola ekki þegar einhver svarar í sömu mynt. Þá er það kallað "reiðilestur", "fúkyrðaflaumur" og annað í þeim dúr. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur og er umræddum þingmanni Samfylkingarinnar til enn frekari minnkunar.

Þorsteinn Már Baldvinsson

PS.
Í framhaldi af þessum umræðum set ég hér á síðuna glærur sem innihalda ýmsar fróðlegar upplýsingar um íslenskan sjávarútveg og samanburð, t.d. við Noreg.