Skipin farin til veiða og landvinnsla hafin af fullum krafti

Áhöfnin á Björgu EA ásamt Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra/ myndir samherji.is/Þorgeir Baldursson
Áhöfnin á Björgu EA ásamt Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra/ myndir samherji.is/Þorgeir Baldursson

Ísfisktogarar Samherja héldu til veiða skömmu eftir miðnætti fimmtudaginn 2. janúar 2025 og vinnsla í landvinnslum félagsins hófst um morguninn. Uppsjávarskipið Vilhelm Þorsteinsson og frystitogarinn Snæfell fóru til veiða 3. janúar. Það má því segja að hjól atvinnulífsins séu farin að snúast af krafti eftir jóla- og nýársfrí starfsfólks.

Þrjú hundruð manns mættu til starfa í landvinnslum Samherja á Dalvík og Akureyri í upphafi árs. Sjómenn á skipum félagsins eru um tvö hundruð, tvöfaldar áhafnir eru á skipunum. Fiskvinnsluhúsið á Dalvík er stærsti vinnustaðurinn þar á eftir sjálfu sveitarfélaginu og gegnir því afar mikilvægu hlutverki.

Samherji er með umfangsmikinn rekstur í landeldi á laxi og bleikju og fjölgaði starfsfólki í fiskeldinu á nýliðnu ári. Í vinnsluhúsinu í Sandgerði hófst starfsemi á nýjan leik 2. janúar og í Öxarfirði daginn eftir. Starfsfólk eldisins stóð vaktina um jól og áramót eins og alla aðra daga ársins.

Við þessi störf bætist fjöldi fólks í ýmsum öðrum þáttum starfseminnar, auk þjónustuaðila.

Bjartsýnn en hugsi yfir umræðunni um sjávarútveg

„Okkur tókst að halda úti vinnslu alla virka daga ársins nema tvo daga í nóvember vegna óveðurs, enda kallar markaðurinn eftir stöðugu framboði alla daga. Þessa dagana nýtum við til dæmis allt það pláss sem gefst í flugi frá landinu til að koma afurðum okkar til kaupenda. Ferskur íslenskur fiskur var kominn á diska neytenda 4. janúar. 

Ég er á margan hátt nokkuð bjartsýnn á árið. Ný ríkisstjórn segir brýnt að auka verðmætasköpun og stöðugleika í efnahagslífinu, sem ég tek heilshugar undir. Lykilatriði í þessum efnum er að útflutningsgreinar okkar séu samkeppnishæfar á alþjóðlegum mörkuðum. Ég tel að sjávarútvegur geti lagt töluvert af mörkum til þessa mikilvæga markmiðs og vonandi ber okkur gæfu til að atvinnugreinin geti átt gott og árangursríkt samstarf við stjórnvöld um aukna verðmætasköpun í útgerð, fiskvinnslu og fiskeldi.

Víða um land eru kraftmikil sjávarútvegsfyrirtæki með fjölda fólks í vel launuðum heilsársstörfum. Undir er ekki aðeins lífsafkoma sjómanna og starfsfólks í landi heldur einnig rekstur þeirra fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn.

Stærstu vinnslurnar á hvítfiski eru í Póllandi og Kína, þar sem launakostnaðurinn er margfalt lægri. Við þessar þjóðir keppum við svo á erlendum mörkuðum. Íslenskur sjávarútvegur er að velta innan við 400 milljörðum króna á meðan sjávarútvegurinn í Noregi veltir um 2.300 milljörðum króna. Við erum með öðrum orðum ekki stór í þessum samanburði.

Verðmætasköpunin byggist meðal annars á flókinni og tæknilegri vinnslu, bæði til sjós og lands. Tækniframfarir og fjárfestingar eru forsendur samkeppnishæfni og fyrirtækin þurfa að tryggja viðskiptavinum sínum gæðaafurðir alla daga ársins.

Þessar staðreyndir skulum við hafa í huga í allri umræðunni, sem á það til að fara út og suður,"  segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf.

Meðfylgjandi eru myndir af áhöfnum skipa sem héldu til veiða i upphafi ársins, einnig starfsfólki í söludeild og fiskvinnslu á Dalvík.