Um borð í uppsjávarveiðiskipi Samherja, Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, hefur verið tekið í notkun skjámyndakerfi sem tengt er við brunaviðvörunarkerfi skipsins. Með tilkomu kerfisins getur áhöfnin séð með myndrænum hætti í hvaða rými skipsins viðvörun kviknar og þar með brugðist fyrr við en ella og með ákveðnari hætti. Ekki er vitað til þess að annað fiskiskip í heiminum sé búið slíku viðvörunarkerfi, enda þannig búnaður aðeins í stórum skipum, svo sem skemmtiferðaskipum.
Nærri tveggja ára undirbúningur
Vilhelm Þorsteinsson kom nýr til landsins fyrir tæpum tveimur árum. Skipið er á allan hátt mjög vel útbúið, þar með töldu öflugu brunaviðvörunarkerfi. Fljótlega eftir komu skipsins var farið að ræða möguleika á að bæta búnaðinn enn frekar og setja upp skjámyndakerfi í brúnni, þannig að skipstjórn geti strax séð á tölvuskjá hvar hitastig hefur hækkað óeðlilega mikið eða eldur kviknað.
Samherji leitaði til fyrirtækisins Nortek, sem hefur áralanga reynslu í uppsetningu og viðhaldi brunaviðvörunarkerfa í skipum og bátum.
Búnaðurinn einfaldur í notkun
„Sjálft brunaviðvörunarkerfið var framleitt af sænska fyrirtækinu Consilium og við unnum að útfærslu skjámyndakerfisins í samvinnu við Svíana og Samherja. Okkar hlutverk var að setja upp tölvubúnaðinn, samhæfa og gera allar nauðsynlegar prófanir. Öllu þessu er nú lokið og skjámyndakerfið hefur verið tekið í notkun,“ segir Heimir Ólafur Hjartarson svæðisstjóri hjá Nortek á Akureyri.
Heimir segir að grunnkerfi brunavarna í skipinu sé af fullkomnustu gerð, skjámyndakerfið geri það þó enn öruggara.
„Fyrir áhöfnina er þetta í raun bylting, með þessum búnaði verður hægt að bregðast við mun fyrr, skapist hætta. Búnaðurinn er tiltölulega einfaldur í notkun. Ég veit ekki til þess að slíkt kerfi sé í öðru fiskiskipi í heiminum, þannig að Samherji er þarna að stíga mjög stórt skref í öryggismálum. Ég er ekki í vafa um að þetta kemur til með að vekja verðskuldaða athygli. Hjá okkur er næsta skref að setja upp eins búnað í Börk NK, sem er í eigu Síldarvinnslunnar og er systurskip Vilhelms Þorsteinssonar,“ segir Heimir.
Góð og skynsamleg viðbót
Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni segir að starfsmenn Samherja hafi séð skjámyndakerfi fyrir brunavarnir á tæknisýningu fyrir nokkrum árum síðan. Í kjölfarið hafi vaknað áhugi á að setja upp slíkan búnað í skipum félagsins.
„Sænska fyrirtækið Consilium er framarlega á sviði brunavarna og við höfum í gegnum tíðina verið í farsælu samstarfi við Nortek um alls konar tæknilausnir og þjónustu. Stóra málið er engu að síður að viðhalda með öllum tiltækum ráðum forvörnum um borð og sýna í árvekni í hvívetna. Áhöfnin er mjög meðvituð um mikilvægi eftirlits, þjálfunar og forvarna í öryggis- og eldvarnarmálum og útgerðin leggur ríka áherslu á þessa þætti. Þetta skjámyndakerfi er góð og skynsamleg viðbót í þeim efnum. Við Íslendingar teljumst vera framarlega í brunavörnum í skipum og eigum hiklaust að vera það áfram,“ segir Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni.