Skrifstofan flutt til Hessle

seagold 

Seagold Ltd, sölufyrirtæki Samherja í Bretlandi, hefur flutt sig um set í Hull. Frá stofnun félagsins í maí 1996 hefur það verið til húsa í miðbæ Hull, en nú er Seagoold komið í um 100 fermetra skrifstofuhúsnæði í útbæ Hull, sem heitir Hessle.

seagoldhdq
Skrifstofur Seagold Ltd eru í Hessle,
 litlum bæ í útjaðri Hull

Gústaf Baldvinsson, framkvæmdastjóri Seagold og sölu- og markaðsstjóri Samherja, segir að staðsetning skrifstofunnar í útjaðri Hull hafi ýmsa kosti í samanburði við miðbæ borgarinnar, þar sem oft er erfitt að fá bílastæði. Á nýja staðnum er aðgengi fyrir starfsfólk og viðskiptavini mun betra en áður.

Söluskrifstofan annast sölu sjófrystra afurða frá skipum Samherja. Einnig selur Seagold afurðir af Akrabergi, sem Framherji í í Færeyjum gerir út, og Norma Mary, sem Onward Fishing í Skotlandi gerir út. Auk þess selur Seagold Ltd sjófrystar afurðir af Frosta ÞH á Grenivík og skipum Deutsche Fischfang Union í Þýskalandi.

Eins og áður segir er Gústaf Baldvinsson framkvæmdastjóri Seagold. Auk hans starfar Birgir Össurarson á skrifstofunni, en hann hóf störf hjá fyrirtækinu fyrir nokkrum mánuðum í tengslum við aukin umsvif þess í Bretlandi. Þriðji starfsmaðurinn er Victoria Evans, ritari.

Góður vöxtur hjá Seagold

seagskrst
Hinar nýju skrifstofur Seagold Ltd
eru hinar vistlegustu.

"Starfsemi Seagold hefur gengið mjög vel. Við höfum selt sjófrystar afurðir frá Samherja inn á markað hér í Bretlandi, sem er stærsti markaðurinn fyrir þessar afurðir. Veltan hefur vaxið ár frá ári og farið upp í um 25 milljónir punda á ári. Í augnablikinu er hér mikil spurn eftir þorski, enda er haustið alltaf góður tími fyrir sölu á þorskafurðum. Sjófrysti fiskurinn fer fyrst og fremst á hinn svokallaða "Fish and chips" markað, en eins og fólk þekkir hefur lengi verið rík hefð hjá Bretum fyrir neyslu á fiski sem skyndibitamat og á því hefur lítil breyting orðið," segir Gústaf.

Auk sjófrystra afurða annast Seagold ásamt Royal Greenland sölu á rækjuafurðum Samherja í Bretlandi. "Bretland er langstærsti markaðurinn fyrir kaldsjávarrækju. Okkur hefur gengið ágætlega að selja rækjuna, en spurningin er fyrst og fremst um verðið. Rækjumarkaðurinn hefur verið nokkuð þröngur og hann virðist ekki fara stækkandi."

Vel staðsettir á Humberside svæðinu

Gústaf telur afar mikilvægt að vera með söluskrifstofu á þessu svokallaða Humberside svæði í Bretlandi. "Já, það er mjög mikilvægt. Skipin koma hingað inn og hér eru frystigeymslur fyrir fiskinn. Héðan er afurðunum dreift og hér eru margir stórir kaupendur. Ég myndi segja að Hull og Grimsby séu miðpunkturinn í sölu og dreifingu á fiski í Bretlandi og því er án vafa lykilatriði að vera með skrifstofu hér og ná þannig góðu og persónulegu sambandi við viðskiptavinina," segir Gústaf Baldvinsson.

Hið nýja heimilisfang Seagold Limited er:

Seagold Ltd
The Orangery Hesslewood Country Office Park
Ferriby Road, Hessle - East Yorkshire
HU13 OLH Hull
Great Britain