Sogarmur í sjálfvirknibúnaði hannaður af starfsmönnum Samherja og ÚA. Búnaðinum framleiddur með þrívíddarprentara á Dalvík

Jón Ingi Ólason yfirmaður viðhalds á Dalvík undirbýr að prenta út sogarminn í þrívíddarprentara/mynd…
Jón Ingi Ólason yfirmaður viðhalds á Dalvík undirbýr að prenta út sogarminn í þrívíddarprentara/myndir samherji.is

Tækniteymi landvinnslu Samherja vinnur að þróun og hönnun nokkurra tæknilausna fyrir fiskvinnsluhús Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa á Dalvík og Akureyri. Þessa dagana er verið að taka í notkun sogarma sem tengjast flóknum sjálfvirknibúnaði í vinnsluhúsunum, sem hannaðir og þróaðir eru af tæknideild Samherja og framleiddir í þrívíddarprentara á Dalvík. Eldri sogarmarnir uppfylltu ekki þær kröfur sem gerðar eru til slíks hátæknibúnaðar.

Skapandi andrúmsloft frumkvöðla

Atli Dagsson tæknistjóri landvinnslu Samherja segir mikilvægt að styðja við og örva tækniþróun, þess vegna hafi verið sett á laggirnar tækniteymi er horfi sérstaklega til þróunar og hönnunar á sértækum tæknilausnum fiskvinnslunnar.

„Það er heilmikið í gangi og við erum vel í stakk búin til að útfæra ýmsar tæknilausnir, sem margar hverjar eru flóknar. Hérna á Eyjafjarðarsvæðinu erum við í samvinnu við fyrirtæki sem búa yfir víðtækri þekkingu, svo sem Slippurinn og Raftákn á Akureyri. Með því að þróa og hanna búnaðinn innan veggja Samherja, eflist tækniþekkingin og innviðirnir styrkjast sömuleiðis. Starfsfólkið er líka afskaplega áhugasamt og leggur mikið á sig til að ná settum markmiðum. Hérna ríkir sem sagt skapandi andrúmsloft frumkvöðla, sem við Íslendingar erum reyndar þekkt fyrir um víða veröld þegar kemur að tæknilausnum fyrir sjávarútveginn og haftengdar greinar.“

Plastfilman rataði ekki á réttan stað

Atli bendir á að Samherji hafi í gegnum tíðina unnið náið með hátæknifyrirtækjum, svo sem við uppbyggingu vinnsluhúsanna á Dalvík og Akureyri. Með slíkri samvinnu hafi skapast dýrmæt reynsla og þekking.

Jón Ingi Ólason yfirmaður viðhalds á Dalvík segir að töluverð hugmynda- og þróunarvinna hafi átt sér stað varðandi nýja sogarminn.

„Sjálfvirkur búnaður sér um að setja örþunna plastfilmu yfir ferskan fisk í kössum, áður en þeir eru fylltir af ís. Vandamálið er að plastið ratar ekki á hárréttan stað, sem þarf þá að leiðrétta handvirkt. Þess vegna var hafist handa við að hanna nýjan sogarm á búnaðinn og eftir nokkrar útfærslur erum við komin með lausn sem virðist ætla að virka. Þetta hefur verið tæknilega nokkuð flókið og tímafrekt verkefni, þótt hluturinn sem við hönnuðum sýnist ekki flókinn. Það er sannarlega hvetjandi að sjá afurðina loksins virka eins og lagt var upp með í byrjun. Og svo er líka frábært að prenta þetta út á staðnum í góðum þrívíddarprentara.“

Nýsköpun mikilvæg

„Já, þrívíddarprentarinn hérna á Dalvík er mikið notaður, við prentum út alls kyns hluti sem þarf að endurnýja í vinnslunni. Við hönnum og teiknum flest alla hluti en einnig er hægt að finna ýmsar teikningar á netinu, þá er hægt að prenta út nánast hvað sem er. Þróunin í svona prenturum er hröð, þessi er nokkuð hraðvirkur, enda veitir ekkert af. Fiskvinnsluhúsin eru bæði mjög tæknivædd og tækni á sviði vél- og rafeindabúnaðar fleygir fram með miklum hraða. Við hjá Samherja ætlum að vera áfram í fremstu röð og þess vegna er mikilvægt að leggja áherslu á nýsköpunar- og þróunarvinnu,“ segir Jón Ingi.