Svo að segja öllum sóttvarnartakmörkunum í vinnsluhúsum Samherja og ÚA hefur nú verið aflétt, sléttum tveimur árum eftir að neyðar- og viðbragðsáætlanir vegna COVID-19 voru virkjaðar. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja fagnar þessum tímamótum og þakkar starfsfólkinu fyrir að hafa brugðist við heimsfaraldrinum af ábyrgð og sýnt mikla þrautseigju og aðlögunarhæfni. Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja segir þetta tveggja ára tímabil hafa verið strembið en með samstilltu átaki hafi tekist að halda starfseminni gangandi.
Margvíslegar áskoranir starfsfólks
Áður en fyrsta COVID-19 smitið greindist hér á landi lét Samherji útbúa fræðsluefni fyrir starfsfólk um smitleiðir og varúðarráðstafanir til að fyrirbyggja smit, efnið var unnið á grundvelli upplýsinga frá almannavörnum og landlækni. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir að heimsfaraldurinn hafi eðlilega haft umtalsverð áhrif á starfsemina, áskoranir starfsfólks hafi verið margvíslegar.
Ítarlegar varúðarráðstafanir skiptu sköpum
„Við gripum strax til víðtækra ráðstafana, markmiðið var að verja starfsfólkið og reksturinn. Þessi tímamót eru sérlega ánægjuleg, það reyndi sannarlega á samstöðu allra og vonandi erum við að sjá fram á bjartari tíma í þessum efnum. Við tókum til dæmis í notkun fullkomnasta fiskvinnsluhús heimsins á þessum tíma og þrátt fyrir afleiðingar faraldursins hefur vinnslan gengið vel frá fyrsta degi, enda allur undirbúningur hnitmiðaður. Sömuleiðis tókst okkur að halda úti skipaflotanum og ég er ekki í vafa um að þar hafi skipt sköpum að viðhafðar voru ítarlegar varúðarráðstafanir. Núna er bara að krossa fingur og vona að faraldurinn verði senn að baki, starfsfólkið hefur sýnt mikla þrautseigju og aðlögunarhæfni og fyrir það er ég óskaplega þakklátur og síðast en ekki síst stoltur. Þótt takmörkunum hafi nú að mestu verið aflétt, hvetjum við starfsfólk til varkárni og fylgja leiðbeiningum sóttvarnaryfirvalda,“ segir Þorsteinn Már.
Salatbarinn opnaður eftir tveggja ára lokun
Strax í upphafi takmarkananna var sjálfsafgreiðslu í mötuneytum hætt. Þannig var salatbörum lokað, þar sem fólk gat sjálft valið sér ávexti, grænmeti og fleira. Í mötuneyti ÚA hafði salatbarinn verið lokaður í tvö ár er hann var opnaður á nýjan leik í gær, sem starfsfólkið fagnaði eðlilega.
Samstillt átak allra starfsmanna
Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja segir fulla ástæðu til að fagna þessum tímamótum. Áfram verði þó að gæta fyllstu varúðar.
„ Strax í upphafi faraldursins var ákveðið að gera skipin út af fullum krafti og þar með vinnsluhúsin. Þetta tókst allt saman með samstilltu átaki allra starfsmanna. Allar varúðarráðstafanir sem gripið var til höfðu takmarkandi áhrif á starfsemina en allt starfsfólkið var samstillt og ég er nokkuð viss um að það hafi ráðið úrslitum um að okkur tókst að halda úti fullri vinnslu og setja meira að segja met í framleiðslunni. Áskoranirnar voru margvíslegar og þessi tvö ár hafa um margt verið langur tími. Með þessum afléttingum á sóttvarnartakmörkunum sjáum við fram á bjartari tíma, sólin er að hækka á lofti með ýmsum hætti. Engu að síður er mikilvægt að allir fari varlega.“