Íslandsbleikja opnaði síðastliðinn föstudag með formlegum hætti nýja stækkun við eldisstöð sína að Stað í Grindavík. Um er að ræða 8 ný eldisker samtals 16.000 rúmmetra sem bætast við núverandi 28.000 rúmmetra eldisrými sem þegar er á svæðinu.
Í tilefni dagsins var slegið upp veislutjaldi og verktökum sem hafa komið að byggingunni og starfsfólki félagsins ásamt fjölskyldum þeirra boðið til grillveislu í eldisstöðinni. Þangað mættu nálægt 100 manns sem skoðuðu stöðina og gæddu sér á dýrindis heilgrilluðu lambi með tilheyrandi meðlæti.
"Það eru liðnir áratugir síðan byggð hafa verið svipuð mannvirki á landi til bleikjueldis. Við vorum með þetta verkefni í startholunum í langan tíma og það er virkilega ánægjulegt að sjá þessi glæsilegu kör í dag sem munu fyllast af fiski eitt af öðru á næstu mánuðum. Þessi uppbygging er fyrsta stóra skrefið okkar í að auka framleiðslugetuna og byggja undir framtíðar vöxt bleikjueldis á landi." Segir Jón Kjartan Jónsson framkvæmdastjóri Íslandsbleikju
Íslandsbleikja er stærsti bleikju framleiðandi í heimi og framleiðir tæp 3000 tonn af bleikju árlega. Með þessari nýju eldis einingu er áætlað að auka heildarframleiðslu á bleikju um 25% á ári þegar öll kerin verða komin í fulla framleiðslu.
Hjá íslandsbleikju starfa rúmlega sjötíu manns í 5 eldisstöðvum á Suðurlandi, Reykjanesi og Öxarfirði en einnig er slátrun og fullvinnsla fyrir afurðir félagsins í Grindavík.