Starfsfólki fjölgað um 20-30 stöðugildi

Myndrún ehf.
Myndrún ehf.

Samkomulag um breytt vinnufyrirkomulag í frystihúsi Samherja á Dalvík:

Samherji, Eining-Iðja og starfsfólk frystihúss Samherja á Dalvík hafa samið um breytt vinnufyrirkomulag í frystihúsinu, sem felur í sér að vinnslutími er lengdur úr 12 klst. í 15 klst. á sólarhring. Jafnframt var samið um nýtt pásukerfi sem felur í sér að í stað þess að vinnsla stöðvist í hvíldartímanum eru starfsmenn leystir af í störfum sínum. Þetta þýðir að vinnslan í frystihúsinu stöðvast ekki í matar- og kaffitímum.

“Undanfarið ár höfum við unnið 12 stundir á dag og framleitt úr um 150-160 tonnum á viku. Með breyttu vinnufyrirkomulagi reiknum við með að vinna úr í það minnsta 200 tonnum á viku. Það pásukerfi sem við tökum núna upp á Dalvík er hliðstætt því sem við höfum verið með í rækjuverksmiðju okkar á Akureyri, í nokkur ár og reynst mjög vel þar. Það er ljóst að með þessum breytingum munum við fjölga starfsfólki í frystihúsinu um 20-30 stöðugildi, afköst munu aukast og um leið hækka launin,” segir Aðalsteinn Helgason, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja.

Heildarfjöldi starfsmanna frystihússins verður um 130 manns. Meðallaun starfsmanns í frystihúsinu á Dalvík eru nú liðlega 150.000 kr. á mánuði fyrir 8 klst. dagvinnu.

Á undanförnum árum hefur orðið veruleg aukning í landvinnslu Samherja á Dalvík. Árið 2001 var unnið úr um 4.500 tonnum, en á næsta ári er stefnt að því að vinna úr um 10.000 tonnum af hráefni. Vinnsla á ferskum afurðum – svokölluðum flugfiski – hefur aukist verulega og segir Aðalsteinn að sú vinnsla muni enn aukast á næstu mánuðum. “Vinnslan á Dalvík hefur gengið vel á undanförnum árum, við höfum gott starfsfólk og húsið er vel búið. Þá hefur sala afurða gengið vel. Ég tel því að við séum vel í stakk búnir til þess að auka þessa vinnslu enn frekar,” segir Aðalsteinn. Uppistaðan í hráefni frystihússins á Dalvík hefur komið af tveimur ísfisktogurum Samherja, Björgúlfi EA og Margréti EA. Á nýliðnu fiskveiðiári fiskaði Björgúlfur um 4.700 tonn og Margrét um 4.200 tonn. Þar af lönduðu skipin samanlagt um 7.200 tonnum af þorski og ýsu til vinnslu.