Stefnt á þriggja stafa tölu

Baldvin Þorsteinsson EA-10
Baldvin Þorsteinsson EA-10
Frystitogarinn Baldvin Þorsteinsson EA kom til hafnar í liðinni viku eftir 31 daga veiðiferð. Afli upp úr sjó var um 460 tonn og aflaverðmætið nam rúmum 100 milljónum króna. Sú saga hefur raunar heyrst að markmið áhafnarinnar hafi verið að koma ekki að landi fyrr en aflaverðmætið væri komið í þriggja stafa tölu í milljónum talið.

„Jú, ég get staðfest að það er nokkur fótur fyrir þessu," segir Hákon Þröstur Guðmundsson, skipstjóri, þegar sagan er borin undir hann en bætir við að auðvitað hefði þetta allt verið meira í gamni en alvöru. „Raunar var þetta markmið til komið fyrir áeggjan Þorsteins Más. Hann hringdi í okkur út á sjó eins og stundum áður til að fylgjast með hvernig gengi og skaut því að svona í leiðinni hvort við myndum nokkuð koma inn fyrr en aflaverðmætið hefði náð þriggja stafa tölu. Auðvitað urðum við að bregðast við því og standa okkur," segir Hákon Þröstur.

Óvenju mikil ýsuveiði

Að sögn Hákonar byrjaði túrinn fyrir austan land en síðan færðu menn sig á Vestfjarðamið. Megnið af fiskinum var unnið fyrir Bandaríkjamarkað. Aflinn var sem fyrr segir um 460 tonn. Stærstur hluti þess var þorskur en þó var ýsuveiðin óvenju mikil að þessu sinni, eða 130 tonn. Því má raunar bæta við að Baldvin Þorsteinsson EA var aflahæstur íslenskra togara á síðasta fiskveiðiári samkvæmt tölum frá Fiskistofu og nam afli skipsins þá alls 6.574 tonnum.