Stefnt að sameiningu BGB-Snæfells og Samherja hf. fyrir árslok

Svo sem fram hefur komið hafa Kaupfélag Eyfirðinga svf. og Samherji hf. átt í viðræðum undanfarna daga um skipti á hlutabréfum KEA í BGB-Snæfelli hf. fyrir hlutabréf í Samherja. Þessum viðræðum er nú lokið og hafa félögin tvö náð samkomulagi um öll atriði málsins. Í samkomulaginu felst að stefnt skuli að sameiningu BGB-Snæfells og Samherja og að sameiningin taki gildi eigi síðar en um næstu áramót. Skiptahlutfall í hinu sameinaða félagi verður þannig að núverandi hluthafar BGB-Snæfells munu eignast 26% í því og núverandi hluthafar Samherja hf. 74%. Stærsti einstaki hluthafinn í hinu sameinaða félagi verður KEA með um 17% eignarhlut

Í samkomulaginu er kveðið á um að boðað verði til hluthafafundar í Samherja innan 14 daga. Þar verður leitað heimildar til hlutafjáraukningar og að hluthafar falli frá forkaupsrétti sínum. Gert er ráð fyrir að heildarhlutafé í félaginu verði aukið úr 1.374 milljónum króna í 1.857 milljónir. Á fundinum verður jafnframt kosin ný stjórn fyrir Samherja. KEA tilnefnir einn aðalmann og einn varamann til setu í stjórn. Í stjórn Samherja eru fimm aðalmenn og tveir varamenn og eru varamenn boðaðir á alla stjórnarfundi.

Höfuðstöðvar landvinnslu til Dalvíkurbyggðar
*
Samkomulag er um að höfuðstöðvar landvinnslu Samherja flytjist til Dalvíkurbyggðar og að þar verði staðsett útgerðarstjórn á ferskfiskskipum sameiginlegs félags. Aðilar eru sammála um að viðhalda öflugri landvinnslu í Dalvíkurbyggð og að nýta ný tækifæri, svo sem í laxeldi og þurrkun á fiski til að treysta þá starfsemi enn frekar.

Aukinn hlutur í fiskeldi

*
KEA vill styðja Samherja í áformum um aukna þátttöku í fiskeldi með því að selja félaginu hlutafjáreign sína í Fiskeldi Eyjafjarðar hf., samhliða hlutabréfaviðskiptunum í BGB-Snæfelli og Samherja. KEA mun jafnframt selja Samherja hlutafjáreign sína í Laxá hf. þegar og ef eftir því verður leitað. Í báðum tilfellum er miðað við að greiðsla fyrir bréfin verði í formi hlutabréfa í Samherja samkvæmt sérstöku samkomulagi þar að lútandi.

Sömu kjör í boði fyrir aðra hluthafa BGB-Snæfells
*
Samherji mun bjóða öðrum hluthöfum BGB-Snæfells sömu kjör og KEA við skipti á hlutabréfum í BGB-Snæfelli og Samherja.

Skipastóll og veiðiheimildir
*
Hið sameinaða félag á alls 22 skip, þar af 12 frystiskip, 4 ísfiskskip, 3 fjölveiðiskip, 2 nótaveiðiskip og einn netabát. Sjö þessara skipa eru í rekstri erlendis. Fyrir liggur sú stefnumörkun stjórnar BGB-Snæfells að fækka skipum í rekstri með sölu á frystiskipum þess. Samherji mun tryggja að sameining BGB-Snæfells og Samherja sem slík muni ekki leiða til fækkunar sjómannsstarfa í Dalvíkurbyggð.

Heildarveiðiheimildir hins sameinaða félags á íslenskum veiðileyfum nema tæplega 34.000 þorskígildistonnum. Þar af eru um 5.200 þorskígildistonn utan landhelgi. Til viðbótar eru umtalsverðar aflaheimildir í öðrum löndum.

11-12 milljarða króna ársvelta
*
Samanlögð velta BGB-Snæfells og Samherja fyrstu 6 mánuði yfirstandandi árs nam um 6 milljörðum króna og því má gera ráð fyrir að velta hins sameinaða félags á ársgrundvelli verði á bilinu 11-12 milljarðar króna. Samanlagður starfsmannafjöldi félaganna tveggja er um 1.040, þar af um 740 hér á landi.

Fréttatilkynning frá KEA svf. og Samherja hf., miðvikudaginn 25. október 2000. Nánari upplýsingar veita Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður KEA, og Finnbogi Jónsson, stjórnarformaður Samherja.