Stjórn Samtaka atvinnulífsins hélt stjórnarfund á Akureyri í gær. Í tengslum við fundinn heimsóttu stjórnarmenn nokkur fyrirtæki á Akureyri og var Samherji í þeim hópi. Þar sem flaggskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11, liggur við bryggju þessa dagana, aldrei þessu vant, þótti tilvalið að bjóða stjórninni um borð.
Nokkrir af stjórnarmönnum Samtaka atvinnulífsins í brúnni á Vilhelm, hlýða á mál Kristjáns Vilhelmssonar, útgerðarstjóra. mynd mó |
|
Það var ekki annað að heyra á stjórnarmönnum Samtaka atvinnulífsins en að þeim þætti þetta skemmtileg upplifun. Voru þeir fræddir um þá starfsemi sem fer fram um borð sem og aðra starfsemi Samherja hf.
70-80 manns í viðhaldsverkefnum
Bæði fjölveiðiskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11 og Baldvin Þorsteinsson EA 10, liggja nú við festar í Akureyrarhöfn. Verið er að endurnýja hluta vinnslubúnaðar skipanna að lokinni loðnuvertíð og búa þau til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum þegar síldarvertíðin hefst í maí. Jafnframt er tækifærið notað til að sinna venjubundnu viðhaldi skipanna tveggja.
Mikil umsvif fylgja þessum endurbótum. Til marks um það má nefna að 70-80 manns eru að vinna um borð í skipunum þessar þrjár vikur sem skipin eru við landfestar. Meirihluti þeirra eru iðnaðarmenn frá fjölmörgum þjónustufyrirtækjum á Eyjafjarðarsvæðinu og víðar. Er þetta enn eitt dæmið um þau miklu margfeldisáhrif sem starfsemi Samherja hefur.