Magnús Helgason frystihússtjóri
Stöðug vinnsla hefur verið í frystihúsi Samherja hf. á Stöðvarfirði að undanförnu en þar starfa að jafnaði 30 manns. Þar er unninn bolfiskur og sjá ísfiskskip Samherja um að afla hráefnis til vinnslunnar.
„Við erum þessa stundina að vinna fisk sem Hjalteyrin landaði á Norðfirði," sagði Magnús Helgason, frystihússtjóri á Stöðvarfirði, þegar haft var samband við hann í morgun. Að hans sögn hefur vinnslan gengið vel og unnið er úr um 8-10 tonnum á dag, eftir því af hvaða stærð fiskurinn er. „Það er búinn að vera góður gangur í þessu og eftir að Samherji kom til skjalanna hefur verið meira umleikis hjá okkur en áður. Hráefni til vinnslu hefur verið stöðugra en Samherji gerir nú út 4 ísfiskskip sem sjá landvinnslum félagsins fyrir hráefni. Afkoma landvinnslu hefur verið góð að undanförnu og áhersla Samherja á hana í kjölfarið hefur komið okkur til góða. Fyrstu 9 mánuði ársins vorum við að vinna úr tæpum 1.300 tonnum sem er nokkur aukning frá fyrra ári. Það er því gott í okkur hljóðið þessa dagana," segir Magnús. Hægt að frysta síld og loðnu
Eins og áður er nefnt einbeitir frystihúsið sér að bolfiskvinnslu en það ræður einnig yfir afkastamiklum búnaði til heilfrystingar á loðnu og síld. Slík vinnsla hefur þó ekki farið fram í húsinu undanfarin misseri. „Maður veit aldrei hvað gerist en það fer mikið eftir því hvar loðnan og síldin eru að veiðast hvort það er hagkvæmt að setja frystinguna hér í gang. En tækin eru til staðar," segir Magnús.