Fyrstu loðnunni sem skip Samherja veiða á nýhafinni loðnuvertíð var landað hjá Samherja í Grindavík fimmtudagskvöldið 27. júní. Það var Oddeyrin EA sem landaði 700 tonnum af loðnu sem skipið náði á Halamiðum vestur af landinu.
Vertíðin hófst 20. júní og fóru nokkrir dagar í leit að loðnunni í upphafi en þegar hún loks fannst gekk mjög vel að ná henni. Þau 700 tonn sem Oddeyrin náði fengust í fjórum köstum á um tuttugu tímum. Loðnan er stór og falleg og mikil áta í henni að sögn Óskars Ævarssonar rekstrarstjóra Samherja í Grindavík. Hann hafði eftir skipstjóranum á Oddeyrinni að sjórinn þar sem loðnan fékkst væri fullur af átu og því vonuðust menn til að loðnan héldi sig þar eitthvað áfram. Fituhlutfallið í loðnunni er á milli 9 og 10% að sögn Óskars og reiknar hann með að úr þessum farmi komi um 120 tonn af mjöli og 60 tonn af lýsi.
Löndun úr Oddeyrinni tók um fjóra tíma og hélt skipið síðan rakleiðis til veiða á ný. Oddeyrin er enn sem komið er eina skip Samherja sem hefur hafið loðnuveiðar, en Þorsteinn EA og Vilhelm Þorsteinsson EA eru við veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum.