Stór og fallegur kolmunni

Fyrsti kolmunnafarmurinn sem landað er á Suðurnesjum á þessu ári kom til verksmiðju Samherja í Grindavík á mánudag. Það var Bergur VE sem landaði í Grindavík 1.200 tonnum af kolmunna sem fengust á fjórum sólarhringum í Rósagarðinum og á Hvalbakssvæðinu austur af landinu.

 

Óskar Ævarsson rekstrarstjóri Samherja í Grindavík er ánægður með þetta hráefni og samkvæmt fréttum frá miðunum virðist nóg af kolmunna um þessar mundir. "Þetta var stór og fallegur kolmunni, ólíkt þeim kolmunna sem veiddist við Færeyjar á sama tíma í fyrra. Það virðist vera kolmunni út um allt. Þorsteinn Símonarson, skipstjóri á Oddeyrinni, sagði mér að þeir hefðu orðið varir við stóra flekki af kolmunna þar sem þeir hafa verið á veiðum á norsk-íslensku síldinni norður á 72. gráðu og að síldin hafi verið nokkuð "kolmunnaborin" í sumum köstunum," segir Óskar og bætir við að þar hafi einnig verið stór kolmunni á ferð.