Á undanförnum árum hefur aukin áhersla verið lögð á landvinnslu í starfsemi Samherja en á upphafsárum fyrirtækisins var útgerð frystiskipa langveigamesti þátturinn í starfseminni. Fyrirtækið er nú orðið mjög öflugt, alhliða sjávarútvegsfyrirtæki með umfangsmikla starfsemi hér á landi og erlendis. Með sameiningu Samherja við Strýtu á Akureyri, Fiskimjöl og lýsi í Grindavík og nú síðast BGB-Snæfell í Dalvíkurbyggð hefur landvinnsla fyrirtækisins aukist til muna.
Landvinnslan sífellt öflugri
Að sögn Aðalsteins Helgasonar framkvæmdastjóra landvinnslu Samherja, var útflutningsverðmæti landvinnslu fyrirtækisins rúmir sex milljarðar á liðnu ári. Tæplega 70% af þeirri upphæð eru vegna landvinnslunnar á Eyjafjarðarsvæðinu og skiptist nokkuð jafnt milli Akureyrar og Dalvíkurbyggðar.
Um 260 manns starfa hjá landvinnslu Samherja á Eyjafjarðarsvæðinu. Hjá Strýtu á Akureyri starfa um 100 manns og um 160 í Dalvíkurbyggð, þar af um 130 í frystihúsinu á Dalvík og samtals þrjátíu manns við saltfiskverkun, hausa- og hryggjaþurrkun á Dalvík og skreiðarverkun á Hjalteyri. Uppistaða starfseminnar á Dalvík er vinnsla bolfisks, aðallega þorsks, en rækjan er fyrirferðarmest í landvinnslunni á Akureyri. Í frystihúsi Samherja á Dalvík var unnið úr um 8.000 tonnum af hráefni á síðasta ári en það kemur að stórum hluta frá ísfisktogurunum Björgúlfi og Kambaröst. Öflug saltfiskverkun er rekin á Dalvík, þar sem tekið er á móti um 500-1.000 tonnum af hráefni árlega en það er aðallega afskurður frá frystiskipunum og stór þorskur af skipum Samherja. Hausa- og hryggjaþurrkunin í Dalvíkurbyggð tekur við um 4.000 tonnum árlega. Í rækjuverksmiðjunni á Akureyri var unnið úr um 9.300 tonnum af rækju í fyrra.
Vel á áttunda hundrað starfsmenn innanlands
Auk þeirra 260 starfsmanna sem starfa hjá landvinnslu Samherja á Eyjafjarðarsvæðinu eru um 50 starfsmenn í frystihúsi fyrirtækisins á Stöðvarfirði og um þrjátíu manns starfa á vegum Samherja í Grindavík. Á ísfisktogurum Samherja eru um 70 sjómenn, ríflega 200 sjómenn á frysti- og fjölveiðiskipunum sem gerð eru út frá Akureyri og ríflega 20 manns starfa við skipaþjónustu. Þá starfa um 30 manns á skrifstofum Samherja á Akureyri og í Dalvíkurbyggð. Eru þá ótaldir þeir bátar sem Samherji skiptir við en á þeim eru fjölmargir sem hafa lífsviðurværi sitt af veiðunum.
Þegar allt er saman talið eru starfsmenn Samherja hér innanlands því eitthvað á áttunda hundraðið, þar af nær sex hundruð á Eyjafjarðarsvæðinu. Það er því ekki að ástæðulausu sem starfsemi Samherja í Eyjafirði er líkt við stóriðju.
Að öllu þessu töldu er síðan ónefnd þau margfeldisáhrif sem starfsemin hefur. Til dæmis á félagið umfangsmikil viðskipti við hafnirnar á svæðinu, kaupir mikið af vörum og þjónustu, rafmagn, vatn og margt fleira, bæði fyrir skipin og vinnslustöðvarnar í landi. Til að gefa hugmynd um umfangið þá kaupir Samherji um 700.000 tonn af fersku vatni af Akureyrarbæ á ári.
Nánar er fjallað um landvinnslu Samherja í Stímvaktinni, fréttabréfi félagsins, sem komið er út og hefur verið borið í hvert hús og fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu en er auk þess aðgengilegt í pdf-formi hér á heimasíðunni.