“Aðalvélin er nógu stór fyrir skipið, þar sem skrúfan er stór og togkrafturinn er nægur. Með minni vél og stærri skrúfu nýtist afl vélarinnar betur og ekki þarf eins mikla olíu sem kemur sér vel á tímum hækkandi olíuverðs. Auk þess er kolefnissporið minna miðað við stærri og kraftmeiri vélar. Hún sinnir sem sagt sínu hlutverki með sóma,” segir Jóhann Orri Jóhannsson fyrsti vélstjóri á Björgu EA 7, togara Samherja.
Hátt í fimm ár eru síðan Björg kom til Akureyrar í fyrsta sinn en skipið var smíðað í Cemre-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi og var hið síðasta af fjórum systurskipum. Samherji lét smíða þrjú og FISK-Seafood á Sauðárkróki eitt.
Skipin vöktu strax athygli og umtal, aðallega vegna þess að stefni þeirra þóttu framúrstefnuleg. Jóhann Orri hefur verið vélstjóri á Björgu frá því skipið kom til landsins.
Öflugt eftirlitskerfi
“Á þessu skipi eru tveir vélstjórar og vaktin er tólf klukkustundir. Okkar daglegu störf snúast fyrst og fremst um að sinna viðhaldi og eftirliti. Við sjáum um allt vélarrúmið, búnað í vinnslunni, framleiða krapa fyrir afurðirnar og ýmislegt fleira. Eftirlitskerfið í skipinu er mjög öflugt, lætur okkur vita af svo að segja öllu sem þarf að huga að. Stundum finnst manni kerfið jafnvel full nákvæmt, sem er samt sem áður mikill kostur. Verkefnin eru sem sagt nokkuð fjölbreytt en um leið skemmtileg.“
Sérfræðingar í landi tengdir inn á kerfin
Störf vélstjóra hafa tekið umtalsverðum breytingum á undanförnum árum með aukinni tækni.
„Ef upp koma bilanir erum við yfirleitt vel í stakk búnir til að sinna þeim en svo kemur líka fyrir að kalla þarf eftir aðstoð sérfræðinga í landi. Þá hleypum við þeim inn í kerfin með rafrænum hætti og þannig fáum við aðstoð við að koma hlutum í lag. Með aukinni tölvuvæðingu er sérhæfingin eðlilega orðin miklu meiri og um margt flóknari. Engu að síður eru grundvallaratriðin hjá okkur vélstjórunum alltaf þau sömu, sjá til þess að allir hlutir séu í lagi og virki eins og til er ætlast.“
Allur varmi nýttur
Hitinn frá vélunum – glatvarminn - er sannarlega vel nýttur.
„Áður fyrr fór glatvarminn, sem er í raun og veru orka, beint út í andrúmsloftið eða í sjóinn. Þessi orka er nýtt til að hita upp íbúðirnar, ofnakerfið, neysluvatnið og fleira. Sömuleiðis er glatvarminn nýttur til að hita olíutankana. Þróunin í þessum efnum hefur verið nokkuð hröð, staðan í dag er sem sagt sú að allur glatvarmi er nýttur til fulls.“
Besta sjóskipið til þessa
„Jú, starf vélstjórans getur verið erilsamt en þetta er fjölbreytt og skemmtilegt. Öll aðstaða er góð og þetta skip er á ýmsan hátt einstakt. Björg er án efa besta sjóskipið sem ég hefið verið á til þessa. Maður finnur varla fyrir brælu, enda skipið einstaklega mjúkt og þægilegt í alla staði,“ segir Jóhann Orri Jóhannsson fyrsti vélstjóri á Björgu EA.