“Sumarstarfsfólkið setur skemmtilegan og jákvæðan brag á vinnustaðinn”

Fv.: Bjarki Freyr Pálsson, Ásdís Inga Gunnarsdóttir, Birna Lind Birgisdóttir, Alex Freyr Friðjónsson…
Fv.: Bjarki Freyr Pálsson, Ásdís Inga Gunnarsdóttir, Birna Lind Birgisdóttir, Alex Freyr Friðjónsson / myndir samherji.is

Um fjörutíu ungmenni eru ráðin til starfa í vinnsluhúsi Samherja á Dalvík í sumar til að leysa af fastráðið starfsfólk vegna sumarleyfa.

Starfsmenn vinnsluhússins eru að jafnaði um eitthundrað og tuttugu, ‏þannig að hlutfall sumarstarfsfólks er nokkuð hátt þessar vikurnar.

Vandaður undirbúningur

Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri segir að vel hafi gengið með ráðningar í vor.

„Því miður er ekki hægt að verða við öllum umsóknum sem berast og í mörgum tilvikum er um að ræða fólk sem hefur verið hjá okkur áður og þekkir því ágætlega til starfseminnar. Við reynum eftir fremsta megni að upplýsa nýtt starfsfólk um helstu verklagsreglur, meðal annars er efnt til nýliðafræðslu þar sem farið er yfir helstu þætti starfseminnar, svo sem öryggismál og spurningum svarað. Í flestum tilvikum er um að ræða fólk sem er að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði, þannig að það þarf að vanda til verka.

Okkar hlutverk er að standa við gerða samninga um afhendingu afurða og án sumarafleysingarstarfsfólksins væri það varla hægt. Við höfum alla tíð verið afskaplega heppin með afleysingarstarfsfólk, sem er í alla staði duglegt og samviskusamt. Launin hérna eru líka góð, allur aðbúnaður er til fyrirmyndar og mötuneytið er rómað fyrir góðan mat og veitingar. Þetta unga fólk setur sannarlega jákvæðan brag á vinnustaðinn og gerir lífið enn skemmtilegra. Síðar í sumar kemur svo fastráðna starfsfólkið endurnært til starfa eftir gott sumarfrí,“ segir Sigurður Jörgen Óskarsson.

Góð laun

Alex Freyr Friðriksson er 16 ára og hefur ekki starfað áður í fiskvinnslu.

„Pabbi sótti um fyrir mig í vor, ég var ráðinn og er auðvitað ánægður með það. Oftast hefst vinnslan klukkan átta á morgnana, ég hef verið á frystilínunni og að raða afurðum í kassa. Mér finnst þetta í flestum tilvikum skemmtileg vinna, auk þess þekki ég flesta krakkana hérna. Þetta getur verið svolítið erfitt en það er allt í lagi. Launin eru góð og mötuneytið er frábært, maturinn hérna er miklu betri en í skólanum og meira að segja stundum betri en heima,“ segir Alex Freyr.

Stundum þreyttur í lok vinnudags

Bjarki Freyr Pálsson er 16 ára og er á sínu fyrsta ári í fiskvinnslu.

„Ég sótti bara um og var ráðinn, flesta dagana er ég á frystilínunni og það er fínt. Nýliðafræðslan var mikilvæg og gerði það að verkum að maður hefur betri skilning á flestum þáttum starfseminnar. Þetta er ekkert rosalega erfitt en maður er samt sem áður stundum þreyttur í lok vinnudags en þá er bara að passa sig á að fá nægan svefn. Ég er mjög sáttur við launin og alla aðstöðuna. Hugsanlega sæki ég um um vinnu hérna næsta sumar en draumurinn er að vinna við rafvirkjun. Ég er mjög sáttur og svo þekki ég líka flesta krakkana sem vinna hérna,“ segir Bjarki Freyr.

Eldri starfsmenn kenna nýliðum

Ásdís Inga Gunnarsdóttir er 15 ára og hún hefur ekki áður unnið í fiski.

„Ég er dóttir starfsmanns hérna og veit þess vegna ýmislegt um vinnustaðinn. Ég hef verið á vacum-línunni og í dag er ég á línunni sem afgreiðir fisk í flug. Stundum er mikið að gera, sem er bara allt í þessu fína. Störfin í húsinu eru margvísleg, þannig að það er ýmislegt að læra og eldri starfsmenn kenna okkur nýliðunum margt. Á meðan engin vinnsla var í húsinu fór ég í bæjarvinnuna en hérna eru launin miklu betri og svo er mötuneytið frábært. Ég er mjög ánægð með þetta allt saman,“ segir Ásdís Linda.

Geggjaður matur

Birna Lind Birgisdóttir er 16 ára og er að taka sín fyrstu skref í fiskvinnslu.

„Ég hef margoft komið hingað sem gestur. Báðir foreldrar mínir vinna hérna, þannig að þetta er ansi þægilegt. Tæknin er mikil í húsinu og gaman að sjá hvernig allt spilar saman. Ég hef aðallega verið á fluglínunni og í snyrtingu. Launin eru fín og maturinn geggjaður. Mórallinn er fínn og ég þekki flesta sem vinna hérna, sem er mikill kostur,“ segir Birna Lind.