|
Sundabergið fór frá Hafnarfirði 20.mars s.l. og var að veiðum við Austur Grænland. Hjörtur Valsson er skipstjóri um borð og náðist samband við hann í morgun, er skipið var í Reykjavík við olíutöku. "Veiðiferðin gekk mjög vel, við vorum heppnir með veður og lentum ekki í vandræðum með hafís. Það var þó ís í kring um okkur síðustu tvær vikurnar en við höfðum alltaf einhver svæði opin og stoppaði það okkur ekki við veiðarnar. Við vorum einir á miðunum fyrsta hálfa mánuðinn, þá kom togarinn Kiel sem einnig er gerður út af DFFU og síðan þrjú önnur skip og vorum við því fimm skip á svæðinu síðasta hálfa mánuðinn",sagði Hjörtur Valsson skipstjóri sem nú er kominn í kærkomið frí.
Af öðrum erlendum skipum á vegum Samherja
Baldvin NC kom til Hafnarfjarðar í síðustu viku með 460 tonn af frystum þorskflökum úr Barentshafi. Skipið var að koma úr sinni fyrstu veiðiferð eftir vélaskipti og reyndist allur búnaðurinn mjög vel. Sigurður Kristjánsson skipstjóri og áhöfn hans eru að leggja aftur í hann í dag og er ferðinni heitið á grálúðuveiðar við Austur Grænland.
Norma Mary kom inn til löndunar á Akureyri í síðustu viku með tæp 340 tonn af frystum afurðum, aðallega þorsk og ýsu, úr Barentshafi. Aflanum var umskipað og fer hann að mestu leyti á markað í Englandi.
Arctic Warrior landaði tæplega 340 tonna afla í Bremerhaven í síðustu viku. Aflinn var að langmestu leyti þorskur úr Barentshafi. Skipið fór út í morgun og var ferðinni aftur heitið í Barentshafið.
Akraberg FD landaði í Hafnarfirði um síðustu helgi, fullfermi eða um 380 tonnum af úthafskarfa.