Tæp 11.000 tonn af loðnuafurðum úr landi

Green Selje í Akureyrarhöfn í morgun. Myndrún
Green Selje í Akureyrarhöfn í morgun. Myndrún

Þrjú norsk flutningaskip á vegum Samherja hf. hafa síðustu daga tekið um borð afurðir fyrirtækisins og samstarfsfyrirtækja í höfnum á Norður- og Austurlandi. Alls er um að ræða rúm 8.500 tonn af frystum vörum; nær eingöngu loðnuafurðir. Fyrir fáum dögum flutti fjórða skipið um 2.400 tonn af loðnuafurðum úr landi og því nema þessir flutningar alls tæpum 11.000 tonnum á skömmum tíma. 

Flutningaskipið Green Frost kom til Reyðarfjarðar í fyrradag þar sem skipið verður fulllestað loðnuafurðum en það tekur um 2.300 tonn.
Flutningaskipið Green Bodö sótti afurðir til Þórshafnar og Vopnafjarðar í liðinni viku. Það var síðan fulllestað á Norðfirði í morgun en skipið tekur um 2.200 tonn.
Unnið var að lestun flutningaskipsins Green Selje á Akureyri í gær og mun verkinu ljúka í dag. Þá heldur skipið austur um og verður fulllestað á Norðfirði en það tekur um 3.800 tonn.
Að sögn Unnars Jónssonar í Sölu- og Útflutningsdeild Samherja hf. hafa starfsmenn þar verið önnum kafnir undanfarið. Mikið álag hefur verið við að samræma flutningana og söluna og ekki síst við að skipuleggja hleðslu á flutningaskipunum í takt við landanir vinnsluskipanna.
Skipin fara með afurðirnar í frystigeymslu í Klaipeda í Litháen en þaðan fara þær á markað í ýmsum löndum Austur-Evrópu.
Fyrir skömmu sótti flutningaskipið Ice Bird loðnu- og síldarafurðir til Ísafjarðar, Akureyrar og Norðfjarðar, alls um 2.400 tonn. Þar af fóru um 700 tonn í frystigeymsluna Bergfrost í Færeyjum en um 1.700 tonn voru flutt til Litháen.