Tveir milljarðar króna inn í íslenska hagkerfið á árinu frá erlendum félögum tengdum Samherja

Verðmætur afli unninn í landvinnslunni á Dalvík
Verðmætur afli unninn í landvinnslunni á Dalvík

  Eignaraðild Samherja í erlendum sjávarútvegsfyrirtækjum skapar mikla atvinnu hér á landi. Fyrirtækin hafa gert samninga við íslensk iðnfyrirtæki upp á um 900 milljónir króna síðustu 6 mánuði og keypt vörur og þjónustu hér fyrir hundruð milljónir króna í tengslum við landanir. Þá hefur Samherji, það sem af er þessu ári, flutt inn rúmlega 10 sinnum meira magn af fiski til vinnslu en fyrirtækið hefur flutt út, m.v. óaðgerðan, heilan fisk. Áætlaður virðisauki af vinnslu þessa innflutta hráefnis er um 650 milljónir króna. Samtals hafa því um 2 milljarðar króna komið inn í íslenskt atvinnulíf það sem af er árinu vegna starfsemi erlendra fyrirtækja sem tengjast Samherja. Þetta kemur fram í bréfi, sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, hafa sent starfsfólki sínu, “enda vinnum við markvisst og meðvitað að því að láta íslenskt hagkerfi njóta þessarar eignaraðildar okkar eins mikið og kostur er,” segir í bréfinu.

 

Kveikjuna að bréfinu segja þeir þá að því sem vel er gert í íslenskum sjávarútvegi sé lítið haldið á lofti. Mikið beri á þekkingarleysi í umræðunni og oft sé beinlínis farið með rangt mál, vísvitandi eða óvart. “Við höfum margoft heyrt að Samherji flytji mikið magn af óunnum fiski til vinnslu erlendis. Nýlega lásum við t.d. að fyrirtækið mokaði upp fiski í íslenskri lögsögu, sem það flytti óunninn úr landi. Við erum með þessu beinlínis sökuð um að draga úr eflingu atvinnu og hagvaxtar á Íslandi. Þetta er víðsfjarri sannleikanum og vegna endurtekinna rangra staðhæfinga um starfsemi Samherja langar okkur, ágæta starfsfólk, að fara aðeins yfir með ykkur hvað við höfum verið að gera síðustu mánuði,” segja þeir í bréfi sínu.

Fiskurinn hvergi meira unninn en hjá Samherja

Um landvinnsluna segja þeir að Samherji hafi fjárfest í tækjum og búnaði til að framleiða verðmætustu afurðirnar á markaðinum. “Það eru þessar afurðir og vinnsla þeirra sem krefjast mests vinnuafls og flestra vinnustunda miðað við hráefnið. Við fullyrðum að ekkert fyrirtæki á Íslandi vinnur fiskinn meira  en  Samherji – að ekkert annað fiskvinnslufyrirtæki hér á landi notar jafnmargar vinnustundir við vinnslu hráefnisins. Landvinnsla Samherja sendir aldrei frá sér óunnið flak til útlanda. Allur fiskur er unninn og verðmæti sköpuð úr hverjum einasta hluta. Það er hvergi hærra vinnslustig en hjá okkur, hvergi fleiri vinnustundir sem liggja að baki afurðunum.” Þeir nefna síðan nokkur dæmi máli sínu til stuðnings.

 

Innflutningurinn tífalt meiri en útflutningurinn!

Í bréfinu segir að það sem af er þessu ári hafi, af skipum Samherja, verið flutt út um 520 tonn af ferskum, heilum fiski. Á sama tíma hafi Samherji flutt inn 5.200 tonn, aðallega þorsk, af erlendum skipum til vinnslu í landvinnslum félagsins hér á landi. “Þessi innflutningur okkar hefur skapað mikla atvinnu hér á landi og skilað verulegum tekjum inn í íslenskt þjóðarbú. Þegar tekið er tillit til launa, löndunar, umbúða, flutningskostnaðar o.fl. má gera ráð fyrir að virðisaukinn af vinnslu þessa innflutta hráefnis hér á landi sé í kringum 650 milljónir króna. Að okkar mati er hér um afrek að ræða,” segja Þorsteinn Már og Kristján.

 

Þeir segja að reynt hafi verið að gera það tortryggilegt að al-íslenska fyrirtækið Samherji sé með um 70% af umsvifum sínum erlendis. Þau séu fyrst og fremst fólgin í því að Samherji og dótturfélög eigi hlutabréf í fyrirtækjum sem eru al-þýsk, al-pólsk, al-færeysk, o.s.frv. Það sé hið besta mál, enda vinni Samherji markvisst og meðvitað að því að láta íslenskt hagkerfi njóta þessarar eignaraðildar eins mikið og kostur er.

Þá segjast þeir oft heyra rangt farið með staðreyndir sem tengjast fiskvinnslu Icefresh GmbH í Cuxhaven í Þýskalandi. Staðreyndin sé sú að af þeim fiski sem þar er unninn á þessu ári, komi einungis um 7% af skipum Samherja. Hitt komi frá Noregi (60%) en einnig m.a. frá Danmörku, Færeyjum og Frakklandi.

 

Samningar upp á 900 milljónir króna!

Þorsteinn Már og Kristján segja Samherja beita sér markvisst fyrir því að þau fyrirtæki sem félagið á eignarhlut í kaupi vörur og þjónustu hér á landi. Til marks um það nefnir þeir að á einungis hálfu ári – frá maí til október 2011 – hafi erlend fyrirtæki, sem Samherji á hlut í, gert samninga við íslensk iðnfyrirtæki upp á um 900 milljónir króna! “Hér er um að ræða stór viðhalds- og nýsmíðaverkefni, breytingar á skipum og endurnýjun á fiskvinnslubúnaði. Hér erum við m.a. að tala um kaup á búnaði og tækjum af fyrirtækjum á borð við Slippinn, Rafeyri, Frost, 3X Stál og Marel. Og það sem meira er: Fyrir öll þessi vöru- og þjónustukaup hér á landi er greitt í erlendum gjaldeyri, sem er þjóðinni afar verðmætur eins og málum er háttað.”         

 

Viðskipti við rúmlega 200 aðila vegna landana í Hafnarfirði

Í bréfinu kemur fram að íslenskt atvinnulíf njóti góðs af eignaraðild Samherja erlendis á fleiri sviðum. Þannig landi skip í eigu erlendra fyrirtækja sem Samherji á hlut í, oft á Íslandi. Hann nefnir sem dæmi að tvö skip þýska fyrirtækisins DFFU hafi landað nokkrum sinnum í Hafnarfjarðarhöfn á árinu og keypt ýmsar vörur og þjónustu í tengslum við landanirnar, s.s. löndunarþjónustu, flutninga, umbúðir, olíuvörur, viðgerðarþjónustu, matvörur, flugmiða o.fl. Alls hafi rúmlega 200 íslensk fyrirtæki sent DFFU reikninga vegna landana skipa þess hér á landi og segi það sína sögu hve mikil umsvif slíkar landanir skapi í íslensku hagkerfi. Samantekið hafi erlend hlutdeildarfélög Samherja keypt vörur og þjónustu hér á landi fyrir hundruð milljónir króna það sem af er árinu.

 

2.000 milljónir króna inn í hagkerfið

“Þær tölur sem við höfum nefnt eru samtals um 2 milljarðar króna. Það fjármagn hefur skapað ótrúlega mörg störf á Íslandi. Það munar um minna fyrir íslenskan þjóðarbúskap!” segja þeir Þorsteinn Már og Kristján.

Þeir ljúka bréfi sínu með hvatningu til starfsfólksins: “Sannleikurinn er sá að við öll sem störfum hjá Samherja höfum verið að gera frábæra hluti, þótt markmið okkar sé áfram að gera enn betur. Höldum áfram að skapa sem allra mest verðmæti úr því frábæra hráefni sem við erum að veiða, vinna, ala og markaðssetja. Höldum áfram að beita okkur fyrir því að koma með verkefni inn í landið, sem önnur fyrirtæki og aðrar atvinnugreinar njóta góðs af. Höldum okkar striki!”.