Vinnsla hófst í fiskvinnsluhúsi ÚA á Akureyri sl. fimmtudag eftir fjögurra vikna sumarleyfi. Fyrr í sumar lá vinnsla niðri í fiskvinnslu Samherja á Dalvík í jafn langan tíma. Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja segir að Björgvin EA 311 hafi verið fyrsta skipið sem landaði afla til vinnslu á Akureyri eftir sumarleyfi.
Flóknari vinnsla
„Með því að loka vinnslunum ekki á sama tíma getum við haldið uppi þjónustu við viðskipavini okkar, sem við þjónustum alla daga ársins. Með því að hafa alltaf eitt vinnsluhús í gangi tekst okkur það. Sumarið er ekki háannatími í sölu afurða, þegar fólk grillar frekar en að borða fisk. Þess vegna er í raun nóg að hafa eitt hús opið til að sinna markaðnum. Það er líka liðin tíð að við getum ráðið inn skólafólk til að halda uppi fullri vinnslu yfir sumarmánuðina, auk þess sem vinnslan er orðin flóknari og kallar á sérhæft starfsfólk. Engu að síður erum við með fjölda ungmenna í sumar, enda flestir með sex vikna rétt til orlofs. Skólafólkið kemur einnig inn á veturna, þegar álagið er mikið,“ segir Gestur Geirsson.
Austurland, útilega, garðrækt og sund
Lilja Finnsdóttir hefur starfað hjá Samherja og ÚA í nærri tvo áratugi, fyrst á Dalvík og síðan á Akureyri. Hún segist hafa notið sumarleyfisins, þrátt fyrir allt tal um kalt og úrkomusamt sumar fyrir norðan.
„Það er alveg nauðsynlegt að komast í gott sumarfrí, hlaða batteríin eins og sagt er. Þessar fjórar vikur notaði ég meðal annars til að ferðast um Austurland, fara með barnabörnin í útilegu, dunda mér í garðinum og svo stundaði ég auðvitað sundlaugarnar af kappi. Ég hafði sem sagt nóg að gera í fríinu og kvarta ekkert undan veðrinu, eina rökrétta er að klæða sig í samræmi við aðstæður hverju sinni. Það þýðir ekkert að loka sig inni þótt rigni aðeins og sólin láti ekki sjá sig. Maður klæðir sig einfaldlega eftir veðri, það er ekki flókið mál,“ segir Lilja.
Snýr aftur eldspræk
„Hérna þekkja svo að segja allir alla. Margir hafa starfað hérna lengi og þá myndast eðlilega vinátta eða kunningsskapur. Þess vegna er svo gott að mæta til vinnu á nýjan leik að loknu góðu fríi, komast í rútínu á nýjan leik og hitta samstarfsfólkið. Fyrstu dagana er auðvitað mikið talað um sumarfríið í matar- og kaffitímum. Starfsandinn hérna er á margan hátt einstakur, annars hefði ég varla tollað hérna svona lengi. Ég kem sem sagt eldspræk til starfa eftir prýðilegt sumarfrí,“ segir Lilja Finnsdóttir.