Stjórn Samherja færði í vikunni Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra félagsins verkið „Upphafið“ eftir Elvar Þór Antonsson, sem er nákvæmt líkan af ísfisktogaranum Guðsteini GK 140, eins og hann leit út við komuna til Akureyrar á sínum tíma.
Þorsteinn Már varð sjötugur í haust og er verkið gjöf félagsins í tilefni þeirra tímamóta.
Á næsta ári verða liðin slétt fjörutíu ár síðan Guðsteini, sem legið hafði í reiðuleysi í Hafnarfjarðarhöfn í marga mánuði, var siglt norður til Akureyrar og hafist var handa við að breyta skipinu í frystitogara. Þorsteinn Már segir að „Upphafinu“ verði komið fyrir á góðum stað, enda veki skipið upp margar góðar minningar.
Sigldi inn Eyjafjörð 1. maí 1983
Frændurnir Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Þorsteinn Vilhelmsson keyptu nær allt hlutafé í Samherja hf. árið 1983 en rekstur félagsins var þá kominn í þrot og eina skip félagsins, Guðsteinn GK 140, var á margan hátt illa farið. Frændurnir fluttu aðsetur Samherja til Akureyrar, breyttu Guðsteini í frystiskip sem hlaut nafnið Akureyrin EA 10. Guðsteinn kom til nýrrar heimahafnar, Akureyrar, 1. maí 1983 í blíðaskaparveðri og er gjarnan miðað við þessa dagsetningu í tengslum við starfsemi Samherja í eigu núverandi hluthafa.
Ryðgaður og skítugur
Ungu athafnamennirnir sem keyptu Samherja voru bjartsýnir og stórhuga, þótt útgerð hafi á þessum árum almennt verið í miklum erfiðleikum. Guðsteinn var bæði ryðgaður og skítugur þrátt fyrir nokkra snyrtingu fyrir siglinguna norður. Úrtölu- og svartsýnisraddirnar voru margar en fleiri hvöttu þó ungu mennina til dáða.
Táknræn gjöf afhent í lok afmælisárs og við upphaf næsta afmælisárs
Á sérstökum hátíðarfundi stjórnar Samherja í vikunni var Þorsteini Má afhent verkið „Upphafið“, sem er nákvæmt líkan af Guðsteini GK. Starfsfólk í höfuðstöðvum Samherja við Glerárgötu á Akureyri var viðstatt afhendinguna. Óskar Magnússon, í stjórn Samherja, sagði í ávarpi til Þorsteins Más að hugmyndin að gjöfinni hefði komið eftir töluverðar vangaveltur. Verkið væri í raun og veru afskaplega táknræn gjöf á margan hátt.
Kristján Vilhelmsson samstarfsmaður Þorsteins Más og stjórnarmaður í Samherja sagði að Elvar Þór Antonsson hafi náð að skapa ótrúlegt listaverk með smíði líkansins af Guðsteini.
„Elvar hefur áður gert líkan af skipi Samherja Akureyrinni EA 10. Að baki svona verki liggur mikil nákvæmnisvinna og sérstaklega vandasöm nú þar sem það eina sem Elvar hafði til hliðsjónar voru nokkrar gamlar myndir af skipinu. Okkur fannst ákjósanlegt og táknrænt að afhenda afmælisbarninu gjöfina í lok afmælisársins og við upphaf næsta afmælisárs.“
„Upphafinu“ verður komið fyrir á góðum stað
Eiríkur S. Jóhannsson stjórnarformaður Samherja og Kristján Vilhelmsson afhjúpuðu gjöfina og eins og fyrr segir var starfsfólkið í höfuðstöðvum Samherja viðstatt.
„Mér verður sjaldan orða vant en það gerðist á þessu augnabliki“ sagði Þorsteinn Már er verkið var afhjúpað. Elvar Þór hefur náð að skapa listaverk sem ég mun njóta mjög að horfa á. Ég er ekki búinn að ákveða hvar „Upphafinu“ verður komið fyrir, en staðurinn verður góður.
Ég man ákaflega vel eftir deginum þegar Guðsteinn sigldi inn Eyjafjörðinn í fyrsta sinn. Við höfðum hins vegar skoðað skipið vandlega og vorum sannfærðir um að hægt væri að breyta því í gott frystiskip, sem varð raunin. Þetta glæsilega verk fær mann ósjálfrátt til að rifja upp minningar frá þessum upphafsárum og sömuleiðis fer hugurinn í fljótheitum yfir áratugina fjóra. Ég hef verið lánsamur að vinna með afburða fólki í gegnum tíðina og er sú gæfa ofarlega í huganum.
Þetta ár sem nú er að kveðja hefur verið viðburðaríkt og ánægjulegt á margan hátt. Að verða sjötugur markar auðvitað tímamót og ég er þakklátur fyrir að vera við mjög góða heilsu. Á komandi ári verða önnur tímamót þegar Samherji hefur starfað í fjörutíu ár hérna fyrir norðan og get ég ekki annað en verið bjartsýnn, “ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson.