Þorsteinn EA er fjölnota fiskveiðiskip sem er jafnvígt til botn- og flottrollsveiða og veiða með hringnót. Skipið er nú útbúið til veiða með tveimur botntrollum samtímis eftir að þriðju togvindunni var bætt við. Frystigeta skipsins var tvöfölduð svo og rafmagnsframleiðslan. Skipið er án efa orðið eitt af öflugust fiskiskipum Íslendinga. Öll vinnuaðstaða hefur batnað og meira afthafnarpláss fyrir mismunandi veiðarfæri. Ekki fengust að svo stöddu upplýsingar um kostnaðinn við endurbæturnar á skipinu.
Þorsteinn EA var smíðaður í Noregi árið 1988 og hét þá Helga II RE. Með breytingunum nú hefur skipið lengst úr 51,62 metrum í 70,90 metra, samkvæmt skipaskrá Siglingastofnunar Íslands. Brúttórúmlestatalan hefur aukist úr 794 brl. í 1.086 brl. Brúttótonnatalan hefur aukist úr 1.136 BT í 1.819 BT.
Sem kunnugt er var ákveðið á síðasta ári að Þorsteinn EA flyttist til DFFU, dótturfyrirtækis Samherja hf. í Þýskalandi. Þeirri ákvörðun var hins vegar breytt eftir endurskipulagningu á rekstri DFFU, sem fól m.a. í sér að uppsjávarveiðum þess fyrirtækis verður hætt. Þorsteinn EA er því kominn heim á ný, en nótaskipið Jón Sigurðsson, sem gert hefur verið út af dótturfyrirtæki Samherja í Færeyjum á undanförnum árum en flutt hafði verið til Íslands vegna brotthvarfs Þorsteins EA, er nú aftur komið undir færeyskt flagg.
Átján metra lenging
Teiknistofa KGÞ á Akureyri hannaði breytingarnar. Eftirfarandi lýsing er byggð á upplýsingum frá Gunnar Tryggvasyni starfsmanni teiknistofunnar:
Skipið var lengt um 18 metra í miðju. Brú og íbúðir á bátadekki færðar fram um 11.4 m, íbúðir bakborðsmegin á efra þilfari stækkaðar fram sem færslu brúar nemur. Nýtt þilfarshús stjórnborðsmegin á efra þilfari sem nær alveg út í stjórnborðssíðu og er kraftblökk og aftari snurpugálgi nú staðsett upp á því, þ.e. á bátaþilfari. Fremri snurpugálgi var færður aftar. Nýtt pokamastur var sett á skipið og nótakassi hækkaður og lengdur fram. Nótakrani var færður til að þjóna betur stærri nótakassa.Toggálgi var hækkaður um 1,5 m Togrennu er lokað að ofanverðu með stálhlerum, sláttuborð á þriggja metra bili og fram og aftur gafli lokað með uppstillingu. Þannig er hægt að setja um 260 tonna loðnufarm á dekk.
Ný setustofa, snyrting, geymsla, , símaklefi og inni- og útigalla stakkageymsla með wc er staðsett stjórnborðsmegin á togþilfari. Nýtt ísvéla- og dælurými stjórnborðsmegin en verkstæðið var klætt og einangrað upp á nýtt. Tveim nýjum tveggja manna klefum var bætt við á bátaþilfari.
Nýju rafstöðvarsetti, þ.e. ljósavél og rafli, var komið fyrir í vélarúmi í stað eldri vélar og aðaltöflu breytt tilsvarandi. Nýja skipsrafstöðin er af gerðinni Mitsubishi MAS 1300 KVA 1301, sem MD-vélar flytja inn.
Lestarrými tvöfaldast
Lestarrými u.þ.b. tvöfaldast, þ.e. 6 nýir kælitankar þar af eru 3 tankar einnig frystilestar. Allar lestar eru nú fulleinangraðar og málaðar með matvælavænni málningu frá Efnaverksmiðjunni Sjöfn. Allar lestar voru sandblásnar að undanskildum hluta í lest 1 stjórnborðs- og bakborðsmegin. Einnig voru síður sandblásnar upp að efra þilfari.Einangrun og klæðning var að stærstum hluta endurnýjuð í frystilestum. Botn og loft í síðutönkum voru einangruð í eldri lestum svo og voru nýjar lestar fulleinangraðar og klæddar.
Fjórir nýir olíu-botngeymar bætast við. Settur var nýr andveltigeymir fram á bakka.
Þriðja togvindan
Aðalspilkerfi skipsins er lágþrýst vökvakerfi. Komið var fyrir þriðju togvindunni, nýr 18 tonna gils og nýtt 18 tonna pokaspil. Einnig var sett 45 tonna flottrollstromla. Gamla pokaspilið fært og notast sem úthalaravinda og gömlu flottromlunni breitt og færð fram á togþilfar og notast sem poka-endavinda. Gilsaspil voru færð af bátaþilfari upp á brúardekk. Allar lágþrýstivindur eru nú fjarstýranlegar utan poka-endavindu. Nýtt autotrawl-kerfi fyrir 3 togvindur var sett í skipið og togáttaksstýringar endurnýjaðar fyrir gömlu togvindurnar. Togvindumótorar voru teknir upp. Þrem nýjum vökvadælum var bætt við og kerfi breitt vegna tveggja trolla veiða. Héðinn hf. útvegaði sumt af þessum búnaði og starfsmenn fyrirtækisins önnuðust tæknilega útfærslu og breytingar.
Háþrýstivökvakerfi fyrir nótaveiðar var fært úr afturskipi í nýtt frysti- og dælurými stjórnborðsmegin á togþilfari. Kraftblökk, millifærslublökk, hringjanál og nótakrani voru færð til samræmis við nýtt fyrirkomulag. Allar háþrýstilagnir eru úr ryðfríu efni utan dyra og á vinnsluþilfari.
Vinnsluþilfar
Vinnsluþilfar var allt endurnýjað, þ.e. allar klæðningar og einangrun, svo og lýsing, og verður komið fyrir nýrri vinnslulínu og nýjum frystum. Loft var allt klætt upp á nýtt og síður og þil einangruð og klædd með ryðfríu stáli. Fiskimóttaka var stækkuð og öll einangruð og klædd með ryðfríu stáli. Frystilagnir nýjar og staðsetning frysta miðast við nýja vinnslulínu.Frystilagnir voru klæddar með ryðfríum kápum. Sogdælukútar eru staðsettir á vinnsluþilfari
Ís og frystikerfi
Settar voru í skipið ryðfríar lagnir í allar lestar að dælukútum og frá kútum að flokkunarkerjum og í fiskmóttöku og löndunarlögn. Pressur eru staðsettar í nýju ísvéla-og dælurými en lóðvatnsdælur á vinnsluþilfari. Stýrikerfi er allt endurnýjað svo og allir lokar.
Fyrir voru tvær krapaísvélar og var bætt við einni nýrri vél í ísvélarými frá IceTech. Hægt er að dæla krapa annars vegar eftir sjálfstæðum krapaís lögnum og/eða eftir blóðvatnslögnum.
Nýju frystibúnti var komið fyrir í frystilestum fyrir fjögur ný frystihólf (lestar). Nýrri 450 KW frystipressu verður komið fyrir í ísvélarými. Allar lagnir voru endurnýjaðar frá vökvaskilju að frystum, frystibúntum, ísvélum og nýrri pressu. MMC Fisktækni útvegaði búnaðinn í stækkun og endurnýjun frystikerfisins og vakúmkerfisins.