Þrjár landanir hjá Þorvarði Lárussyni SH
Togbáturinn Þorvarður Lárusson SH 129 frá Grundarfirði, sem Samherji leigir, kom að landi í dag með rúmlega 30 tonna afla. Skipið hefur þar með komið að landi með um 120 tonn úr þremur veiðiferðum á einni viku, þar af fyrstu tvö skiptin með fullfermi... - með 120 tonn á einni viku
Ljósm. Skipaskrá/Jón Sigurðsson
|
Togbáturinn Þorvarður Lárusson SH 129 frá Grundarfirði, sem Samherji leigir, kom að landi í dag með rúmlega 30 tonna afla. Skipið hefur þar með komið að landi með um 120 tonn úr þremur veiðiferðum á einni viku, þar af fyrstu tvö skiptin með fullfermi.
Í dag var landað rúmum 30 tonnum, á mánudag var landað 45 tonnum og sl. laugardag 45 tonnum. Uppistaða aflans var ýsa en einnig veiddist karfi, steinbítur og þorskur. Skipstjóri á Þorvarði er Sigurður Ólafur Þorvarðarson og er hann að vonum ánægður með aflasældina. "Við höfum aðallega verið að veiða í Kolluál við Snæfellsnesið og er það um þriggja og hálfs tíma sigling frá Grundarfirði. Fiskurinn er ísaður um borð, hluti settur í gáma sem fara í fiskvinnslur Samherja á Dalvík og Stöðvarfirði og hluti fer á markaði í Evrópu." segir Sigurður Ólafur. Í áhöfn Þorvarðar Lárussonar SH eru 9 menn, flestir Grundfirðingar.
Samherji hf. er með Þorvarð Lárusson SH á leigu frá Sæbóli ehf. sem er í eigu fjögurra einstaklinga á Grundarfirði og Samherja hf. Skipið var keypt í september á síðasta ári og gekk Samherji þá í samstarf við heimamenn.