Finnbogi Jónsson, stjórnarformaður Samherja hf.
ÚTFLUTNINGSVERÐMÆTI uppsjávaraflans gæti orðið um 36 milljarðar króna eftir áratug með vaxandi manneldisvinnslu. Verðmæti þessa afla var í fyrra um 21milljarður króna og 14 milljarðar árið áður.
Þetta er mat Finnboga Jónssonar, stjórnarformanns Samherja og SR mjöls, og kom fram í erindi hans á aðalfundi LÍÚ þ. 1.nóvember s.l.
(Power Point glærusýning með erindinu er hér 2702Kb)Finnbogi fjallaði á fundinum um þróun í nýtingu á uppsjávarfiski. Hann sagðist sjá fyrir sér aukna sjófrystingu á síld og loðnu næsta áratug, enda hafi skipum fjölgað sem geti fryst um borð mikið magn af fiski. Hann benti meðal annars á að aflaverðmæti nóta- og togveiðiskipsins Vilhelms Þorsteinssonar EA er orðið um 2,5 milljarðar króna á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því skipið hóf veiðar.
Finnbogi spáði því að árið 2011 yrðu um 90% aflans úr íslenska síldarstofninum unninn til manneldis, um 80% norsk-íslensku síldarinnar og um 10% loðnuaflans. Þá taldi Finnbogi fyrirsjáanlegt að vaxandi hlutfall kolmunnaaflans fari til manneldisvinnslu ef hægt verði að þróa vinnsluaðferðir fyrir hann, enda væri kolmunni góð hvítfiskafurð en hingað til þótt erfiður í vinnslu.
Ennfremur taldi Finnbogi að fiskeldi myndi aukast og því færi hærra hlutfall mjöl- og lýsisframleiðslunnar í framleiðslu eldisfóðurs og þannig fengist fyrir hana hærra verð. Jafnframt mætti gera ráð fyrir að tilraunaveiðar á vannýttum tegundum myndu skila auknum verðmætum. Spáði Finnbogi því að miðað við um 1,2 milljóna tonna uppsjávarafla mætti gera ráð fyrir að útflutningsverðmæti hans yrði um 36 milljarðar króna árið 2011 en verðmætið var um 21 milljarður króna á síðasta ári og um 14 milljarðar króna árið 2000.
Finnbogi sagði að ef afli Íslendinga í síld, loðnu og kolmunna héldist um 1,2 milljónir tonna og sífellt meira af aflanum færi til manneldisvinnslu, myndi hlutur fiskimjölsverksmiðjanna vitanlega minnka. Ætla mætti að eftir 10 ár fái verksmiðjurnar undir einni milljón tonna til vinnslu. Hér á landi eru nú reknar um 20 verksmiðjur og sagði Finnbogi að hver verksmiðja þyrfti að vinna úr að minnsta kosti 100 þúsund tonnum á ári til að standa undir rekstri. Því væri ljóst að þeim myndi fækka um að minnsta kosti helming á næstu 10 árum.(úr Mbl.5.nóv 2002)