Til starfsmanna Samherja

Þær eru ansi margar ferðaskýrslurnar sem ég hef lesið síðastliðin 30 ár. Sölumenn okkar hafa haft þann sið að skrifa skýrslu í lok ferðar og hafa þær velflestar ratað inn á mitt borð. Í viðskiptaumhverfi þar sem áhættan er mikil og credit tryggingar eru nánast óþekktar er nauðsynlegt að sölumennirnir þekki viðskiptavinina eins vel og hægt er. Þess vegna eru sölumenn okkar á miklum ferðalögum vítt og breitt um heiminn á hverjum tíma. Nú um helgina barst mér skýrsla frá Gústaf Baldvinssyni, framkvæmdastjóra Ice Fresh Seafood þar sem hann hafði nýlokið heimsókn til stórs viðskiptavinar okkar í Úkraínu. Mig langar að deila þeirri skýrslu með ykkur, skýrslu sem varð reyndar að ferðasögu þegar andinn kom yfir sölumanninn.

Kveðja, Þorsteinn Már

Smávaxin loðna verður agnarsmá

Úkraína hefur verið mikið í fjölmiðlum um allan heim undanfarna þrjá mánuði, þar sem kröftug mótmæli eru í gangi gegn stjórn Janúkóvitsj, en hann er afar óvinsæll hjá alþýðu landsins og talinn verulega spilltur stjórnmálamaður. Janúkóvitsj hefur ekki hikað við að beita bolabrögðum til að koma sínum bandamönnum að  í sem flestar áhrifastöður í landinu. Mótmælin byrjuðu á torginu í Kiev en hafa síðan verið að breiðast út um landið  þar sem mótmælendur krefjast þess að hann segi af sér.  Íbúafjöldi í Úkraínu er rétt tæplega 50 milljónir, en landið var lengi undir hæl Sovétríkjanna, en öðlaðist sjálfstæði 1991.  Miklar hörmungar hafa gengið yfir landsmenn í aldanna rás, Úkraína var innlimuð í Sovétríkin skömmu eftir fyrri heimsstyrjöldina, tvær hungursneyðir herjuðu á þjóðina á fyrri hluta 20. aldar, landið varð að blóðugum vígvelli í seinni heimsstyrjöldinni og nú stendur almenningur jafnvel frammi fyrir borgarastyrjöld, sem enginn veit, hvernig endar.

Á þessum árstíma er það vaninn hjá okkur sölumönnunum Ice Fresh Seafood að setjast niður með okkar helstu kaupendum á loðnuafurðum til að skipuleggja sölur, verð  og afhendingartíma á vertíðinni. Þar sem Úkraína er í dag einn okkar helsti markaður fyrir frysta loðnu, hefur í nokkurn tíma verið á dagskrá hjá undirrituðum að eiga  fund með okkar kaupendum í Kiev.  En þar sem ástandið í Kiev þótti frekar eldfimt vegna róstra í miðborginni, þar sem mótmælendur höfðu látið lífið nokkrum dögum áður, var ekki endanlega ákveðið að ég kæmi yfir til Kiev fyrr en daginn fyrir boðaðan fund. Af öryggisástæðum ákváðu viðskiptavinir okkar að ég gisti  fyrir utan borgina.

Strax á fyrsta fundi mínum sagði ég viðskiptavinum okkar helstu fréttir frá Íslandi, sem ekki væru því miður nægjanlega góðar.  Í fyrsta lagi væri loðnan mun smærri en í fyrra og í öðru lagi hefði engin loðna fundist í rúma viku og allur loðnuflotinn bundinn við bryggju.  Mér til mikils léttis tók helsti kaupandi okkar þessum “slæmu” fréttum með miklu jafnaðargeði, en virtist ekki gera sér grein fyrir alvöru málsins að mér fannst. Hann var annars hugar og var stöðugt í símanum.  Umræðuefnið þar reyndist ekki vera verð á fiskafurðum heldur nýjustu fréttir frá torgi miðborgarinnar.

Þegar dagur var kominn að kveldi stakk viðskiptavinurinn uppá því við mig, að ég kæmi með honum á torgið og þegar ég tók undir þá hugmynd var fundi slitið hið snarasta og haldið af stað! Eftir smá ökutúr stóðum við á torginu félagarnir og nú blasti við mér ótrúleg sjón. Þarna var gífurlegur mannfjöldi kominn saman í 15 stiga frosti, heilu tjaldbúðirnar höfðu verið reistar þar sem mótmælendur höfðu dvalið daga og nætur allt frá því í nóvember. Ég fór tvö kvöld í röð á torgið og það er alveg óhætt að segja að það var mikil upplifun að sjá allt þetta fólk bæði karla og konur svo einhuga. Þarna fara fram mótmæli upp á líf eða dauða, og enginn sér fyrir, hvernig þeim muni lykta.  Ég upplifði andrúmsloftið þannig, að þetta fólk gæfist ekki upp fyrr en Janúkóvitsj segði af sér og engin önnur millileið væri til. Seinna kvöldið fór ég  mjög nálægt þar sem lögreglan og mótmælendur mættust og upplifunin var hreint rafmögnuð!  Karlmenn streymdu hjá vopnaðir bareflum og konur komu færandi hendi með mat og hlýjan fatnað. Mótmælendur slógu stöðugan takt í tunnur eða aðra málma og inn á milli voru sungin  slagorð eða hafðar uppi kröfur. Á torginu blasti þetta allt við mér og nú sá ég smæð íslenskrar loðnu í öðru samhengi! 

Þegar ég kvaddi Úkraínu og sá landið fjarlægjast út um glugga flugvélarinnar kom erindi mitt til landsins upp í hugann.  Ég hafði auðvitað fylgst með fréttum í fjölmiðlum og varð að fresta minni för vegna óstöðugs ástands í landinu.  Mig hafði ekki grunað, að ég ætti eftir að standa á meðal mótmælenda og upplifa andrúmsloft, sem ómögulegt er að lýsa.  Íslenska loðnan, sem hafði í mínum huga verið svo smá, þegar ég hélt af stað, var nú orðin agnarsmá í þessu landi, þar sem nú takast á líf eða dauði. 

Janúar 2014, Gústaf Baldvinsson

Gustaf_Kiev

Gustav_Kiev

Gustaf_Kiev