Togararnir Norma Mary og Víðir EA komin úr sinni síðustu veiðiferð

-          báðum lagt eftir fengsælan og farsælan feril hjá félaginu

Á síðustu vikum komu tvö af elstu skipum Samherja úr sinni síðustu veiðiferð eftir langan og farsælan feril hjá félaginu. Skipin stunduðu bæði bolfiskveiðar og ár eftir ár hafa þau verið meðal þeirra íslensku skipa sem skilað hafa mestu aflaverðmæti.  Norma Mary, áður Akureyrin EA-110, var fyrsta skipið sem Samherji eignaðist og á sér því sérstakan sess í sögu félagsins. Hún var byggð í Póllandi árið 1974 og hét Guðsteinn þegar núverandi eigendur Samherja eignuðust fyrirtækið árið 1983. Skipinu var breytt í frystitogara og var meðal þeirra fyrstu hér á landi sem útbúið var til að fullvinna og frysta afla um borð. Skipið var selt árið 2002 til dótturfyrirtækis Samherja í Bretlandi Onward Fishing Company og nefnd Norma Mary. Það var dæmigert að ferillinn endaði eins og oftast gekk, að skipið kom úr síðustu ferðinni með fullfermi eða tæplega 450 tonn af þorskflökum að verðmæti rúmlega 300 milljónir króna.  Skipstjóri á Normu Mary síðustu árin var Ásgeir Pálsson. 

Togarinn Víðir hét áður Apríl HF og var keyptur frá Hafnarfirði árið 1985.  Víðir var eins og Norma Mary smíðaður í Póllandi árið 1974.  Hann var lengdur og breytt í frystiskip árið 1991 og talsvert endurnýjaður árið 2002. Skipstjóri síðustu ár á Víði var Sigmundur Sigmundsson.
 

Þessar breytingar eru liður í því að endurnýja skip félagsins og að aðlaga skipaflota fyrirtækisins að aflaheimildum.