Fiskimjölsverksmiðja Samherja í Grindavík
Kolmunnavertíðinni er lokið. Síðastliðinn mánudag og þriðjudag lönduðu Vilhelm Þorsteinsson EA 11og Bergur VE 44 lönduðu síðustu tonnunum af kolmunnakvóta Samherja í Grindavík. Í ár tók fiskimjölsverksmiðja Samherja í Grindavík á móti 33 þúsund tonnum af kolmunna, sem er veruleg aukning frá fyrra ári þegar sex þúsund tonnum var landað þar. Aðeins þrjár verksmiðjur hafa tekið á móti meiri kolmunna á vertíðinni en Samherji í Grindavík, þ.e. á Eskifirði, Neskaupstað og Seyðisfirði.
|
Takmarkið sem starfsmenn Samherja hf. í Grindavík settu sér á þessu ári var að taka á móti 100 þúsund tonnum af hráefni og nú þegar eru tonnin orðin 110 þúsund. Óskar væntir þess að þegar upp verði staðið um áramót verði verksmiðjan búin að taka á móti 5-10 þúsund tonnum af síldarafskurði og loðnu til viðbótar. “Nú er bæði Vilhelm Þorsteinsson EA og Þorsteinn EA á síldveiðum fyrir vestan og við bræðum síldarafskurðinn frá þessum skipum. Bæði skipin frysta síldarflök um borð og afskurðurinn, sem er rösk 50% af síldinni, er kældur um borð og síðan bræddur í mjöl hérna í Grindavík. Mér finnst rétt að vekja athygli á því að Samherji er brautryðjandi í að koma með síldarafskurðinn í land og gera þannig verðmæti úr allri síldinni. Kröfur um nýtingu á hráefninu eru stöðugt að aukast og með þessum hætti erum við að mæta þeim kröfum,” segir Óskar Ævarsson, rekstrarstjóri Samherja hf. í Grindavík.