-Nokkur orð frá skipstjórnendum Samherja vegna umræðu síðustu daga.
Vegna umræðu í fjölmiðlum síðustu daga vilja undirritaðir, skipstjórnarmenn hjá Samherja, koma eftirfarandi á framfæri:
Við viljum byrja á því að taka það skýrt fram að við ætlum ekki að leggja mat á mál skipstjóra Júlíusar Geirmundssonar og áhafnar hans. Það mál – sem er fordæmalaust á fordæmalausum tímum – þarfnast vissulega ítarlegrar skoðunar, því svona nokkuð má aldrei gerast aftur. Málið er í sínum rétta farvegi – í Sjóprófum – og við bíðum niðurstöðu þeirra.
Það sem að okkur snýr er hins vegar sú staðreynd að umræðan í kringum þetta mál hefur skaðað ímynd sjómannastéttarinnar í landinu, bæði yfirmanna og undirmanna. Það er ekki síður afleitt að okkar eigið félag, Félag skipstjórnarmanna, lagðist svo lágt að kæra eigin félagsmann til lögreglu vegna framagreinds máls og er því beinn aðili að því. Fyrir vikið erum við skipstjórnarmenn án málsvara og stéttarfélags um þessar mundir um allt það er varðar aðbúnað og vinnulag um borð í fiskiskipum. Félagið okkar hefur dæmt sig úr leik í þeirri umræðu. Það hlýtur að vera einsdæmi að stéttarfélag fari þá leið að kæra eigin félagsmann og einungis einn eða tveir menn hjá félaginu komi að þeirri ákvörðun. Öllum er ljóst að mál Júlíusar Geirmundssonar hefði alltaf farið þá leið sem það fór, þ.e. til lögreglu og svo í Sjópróf. Stéttarfélög annarra í áhöfninni hefðu örugglega farið þá leið til að leita réttar skjólstæðinga sinna. Félag skipstjórnarmanna tók af þeim „ómakið“ af einhverjum undarlegum ástæðum.
Kolröng mynd af raunveruleikanum til sjós
Þau viðtöl sem birst hafa í sjónvarpi eftir svokölluð Sjópróf og sú umfjöllun sem hefur verið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum síðustu daga gefa kolranga mynd af raunveruleikanum til sjós. Varpað hefur verið upp þeirri mynd að hreinlega sé farið illa með menn til sjós og að þeir séu réttlitlir eða réttlausir um borð. Slíkar rangfærslur er eitthvað sem við getum ekki sætt okkur við, því ekkert er fjær sanni.
Margt hefur breyst til sjós síðustu ár og áratugi – og er það allt til batnaðar. Allar breytingar miða að því að skapa heilbrigðara og betra starfsumhverfi fyrir alla sem starfa hjá útgerðinni. Betri líðan starfsmanna til sjós stuðlar að svo mörgu jákvæðu. Þar má nefna betri móral, betri umgengni, aukna vellíðan, minni veikindi og færri slys. Allt þetta stuðlar að því að skila ánægðri áhöfn heilli heim til fjölskyldu og vina að lokinni veiðiferð.
Yfirmaður rekur engan til vinnu
Þú færð engu áorkað á íslenskum vinnumarkaði árið 2020 með hótunum eða hervaldi, hvorki í landi né á sjó. Lögfræðingur stéttarfélaga sjómanna og þar með talið lögfræðingur Félags skipstjórnarmanna ýjaði samt að því í sjónvarpsviðtali mánudaginn 23. nóvember sl. að að sú væri raunin til sjós. Það er fjarstæða.
Eitt er vert að hafa í huga varðandi kjör sjómanna. Allir sjómenn vinna á svonefndu hlutaskiptakerfi, sem þýðir að við eigum hlut í aflanum á móti útgerð og fáum greitt samkvæmt því. Hlutaskiptakerfið virkar þannig að því meiri afla sem við komum með, því meiri laun fáum við. Ef menn eru frá, t.d. vegna veikinda, minnka afköstin eðlilega. Ef menn treysta sér ekki á vakt vegna veikinda – og þau geta verið fleiri en líkamleg, því ekki má gleyma því að sjómenn eiga líf í landi og þar getur ýmislegt komið upp á líka – þá fara menn einfaldlega ekki á vakt. PUNKTUR. Sjómaður sem er ekki í góðu standi líkamlega eða andlega getur skapað sjálfum sér og öðrum hættu. Menn eru ekki lengur frá vinnu en þeir sjálfir vilja eða telja nauðsynlegt. Það er svo okkar skipstjórnarmanna að hafa eftirlit með veikindum og skrá og leita aðstoðar fyrir sjúkling eftir atvikum. Skipstjóri eða stýrimaður rekur engan til vinnu ef viðkomandi treystir sér ekki til þess. Það er hin gullna regla sem er í hávegum höfð til sjós.
Svo margt hefur breyst til batnaðar
Margt og mikið hefur verið gert til að bæta starfsumhverfi sjómanna á síðustu árum. Aðbúnaður er betri en nokkru sinni fyrr og fjölmörg atriði sem lúta að öryggi og heilsu sjómanna hafa tekið stórstígum framförum. Þar má nefna Slysavarnaskóla sjómanna, stóraukna heilsuvernd, reglulegar heilsufarsskoðanir, aukið öryggiseftirlit, nákvæma skráningu slysa og aukna fræðslu á öllum sviðum sem snúa að starfinu. Þá eru ótaldar gríðarlegar endurbætur á skipaflota okkar, sem miða að því að fara betur með menn og afla, auðvelda alla vinnu og auka öryggi okkar sjómannanna. Allt hefur þetta haft þau samverkandi áhrif að veikindadögum sjómanna hefur fækkað og stórlega dregið úr slysahættu sem og slysatíðni til sjós.
Með öryggi áhafnar og skips að leiðarljósi
Líf okkar sjómanna verður alltaf öðruvísi en þeirra sem vinna í landi. Við erum fjarri sjúkrahúsi og læknisþjónustu, slökkviliði og lögreglu. Ef eitthvað bjátar á þurfum við oft að treysta á okkur sjálfa til að leysa þau vandamál sem upp koma. Það reynum við alltaf að gera eftir bestu vitund, með öryggi áhafnar og skips að leiðarljósi. Og það gerum við með allri þeirri aðstoð sem okkur býðst. Sú aðstoð fer stöðugt vaxandi, þökk sé örum tækniframförum og markvissri uppbyggingu fjarheilbrigðisþjónustu. Okkur er mjög umhugað um heill og heilbrigði allra í áhöfninni. Áhöfnin er ein órofa liðsheild. Hótanir og hervald koma þar hvergi við sögu.
Skipstjórnarmenn á skipum Samherja,
Pálmi Gauti Hjörleifsson, skipstjóri
Kristján Salmannsson, skipstjóri
Oliver Karlsson, stýrimaður
Guðmundur Freyr Guðmundsson, skipstjóri
Markús Jóhannesson, skipstjóri
Árni R Jóhannesson, stýrimaður
Ásgeir Pálsson, skipstjóri
Oddur Jóhann Brynjólfsson, skipstjóri
Gauti Valur Hauksson, stýrimaður
Sigtryggur Gíslason, skipstjóri
Angantýr Arnar Árnason, skipstjóri
Guðmundur Þ Jónsson, skipstjóri
Birkir Hreinsson, skipstjóri
Hákon Þröstur Guðmundsson, skipstjóri
Hjörtur Valsson, skipstjóri
Guðmundur Ingvar Guðmundsson, skipstjóri
Björn Már Björnsson, stýrimaður