Um helmingur frystra afurða Samherja á þessu ári fluttur með leiguskipum

GREEN SNOW við bryggju á Akureyri sl.vetur. Myndrún
GREEN SNOW við bryggju á Akureyri sl.vetur. Myndrún

Það sem af er þessu ári hefur Samherji flutt út um tólf þúsund tonn af frystum afurðum, bæði bolfisk- og uppsjávarafurðum, með flutningaskipum sem félagið hefur leigt til flutninga á sjávarafurðum frá Íslandi til hafna í Evrópu. Eitt af þessum skipum, Green Snow, er nú í Neskaupstað þar sem stefnt er að því að ljúka við lestun skipsins annað kvöld, en fulllestað tekur það um 1.850 tonn. Áður hafði Green Snow haft viðkomu í Grindavík, þar sem skipað var út 425 tonnum, og á Reyðarfirði, þar sem skipað var út tæplega 300 tonnum. Uppistaðan í farminum er síldarflök, en einnig bolfiskafurðir. 

Frá Neskaupstað er ferðinni heitið til Velsen í Hollandi, þar sem hluta farmsins verður skipað upp, og þaðan áfram til Swinoujscie í Póllandi.

Green Snow er um 2.800 tonna pallaskip frá norska fyrirtækinu Green Reefers. Unnar Jónsson hjá útflutningsdeild Samherja segir að frá síðustu áramótum hafi Samherji tekið tíu slík flutningaskip á leigu til flutninga á sjávarafurðum til Evrópu. Unnar segir að þessir flutningar hafi gengið mjög vel og ljóst sé að framhald verði á. “Ég á von á því að út þetta ár verði hér leiguskip á hálfs mánaðar fresti,” segir hann og áætlar að heildarmagn frystra afurða Samherja á þessu ári verði um 40 þúsund tonn, þar af verði um 20 þúsund tonnum flutt með leiguskipum.