Samherji býður nú starfsmönnum sínum að gera samgöngusamning, sem kveður á um mánaðarlegan styrk til þeirra sem nota vist- og heilsuvæna ferðamáta til og frá vinnu að jafnaði þrjá daga í viku. Miðað er við að sá sem gerir slíkan samning mæti til vinnu með öðrum hætti en á einkabíl. Styrkurinn er 9.000 krónur á mánuði miðað við hálft til fullt starf og er skattfrjáls. Undirtektir starfsfólks eru góðar.
Margir jákvæðir kostir
Anna María Kristinsdóttir starfsmannastjóri Samherja segir að nú þegar hafi fjölmargir starfsmenn skrifað undir samgöngusamning.
„Fyrstu samningarnir voru gerðir árið 2020, þannig að starfsfólkið þekkir þessa leið ágætlega. Samningurinn sem stendur til boða núna hefur þegar fengið góðar viðtökur og eftir því sem sólin hækkar á lofti og hlýnar í veðri bætast fleiri starfsmenn við, sem er okkar reynsla frá fyrri árum. Miðað er við að sá sem gerir slíkan samning mæti til vinnu með öðrum hætti en á einkabíl, til dæmis gangandi, hjólandi eða nýti almenningssamgöngur. Ég álít að þessi leið hafi marga jákvæða kosti. Viðurkenndar rannsóknir sýna að minni umferð dregur úr svifryksmengun og þeir sem ganga eða hjóla í vinnu eru að jafnaði ánægðari og heilbrigðari en þeir sem notaaðra ferðamáta. Hvatarnir eru því margir og allir jákvæðir.“
Reiðhjólageymsla væntanleg við fiskvinnsluhús ÚA
Anna María bendir á að þessir samningar standi því miður ekki sjómönnum til boða, þar sem reglur hins opinbera um samgöngusamningana geri ekki ráð fyrir þeirra sérstöðu. Vonandi verði fundin útfærsla sem henti sjómönnum.
Við fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík er stór og vel búin reiðhjólageymsla. Í undirbúningi er að slík geymsla rísi við fiskvinnsluhús Útgerðarfélags Akureyringa.
Hollt og umhverfisvænt
Atli Dagsson tæknistjóri Samherja á Dalvík er einn þeirra fjölmörgu starfsmanna Samherja sem hjólar í vinnuna.
„Þessi samningur er bara frábær og er jákvæður hvati til að skilja bílinn eftir heima. Hérna á Dalvík sýnist mér þátttakan vera nokkuð almenn, enda er hjólageymslan full flesta daga vikunnar. Það er gaman að hjóla á milli heimilis og vinnu og svo er það líka hollt og umhverfisvænt. Ég er ekki frá því að þessi samningur hafi líka leitt til þess að ég nota hjólið oftar en ella, þannig að plúsarnir eru margir þegar upp er staðið. Ég er hæst ánægður með þetta, svo mikið er víst,“ segir Atli Dagsson.
Starfsfólki Samherja býðst að gera samgöngusamning á tímabilinu 1. maí til 31. október.