Unnið að endurbótum

Fiskimjölsverksmiðja Samherja í Grindavík:

021217_grvik_heimas
Líf og fjör var í höfninni í Grindavík
í síðustu viku þegar skipað var út um
4400 tonnum af mjöli frá Samherja - F & L
og 1500 tonnum af frystum síldarflökum

Nú er unnið af fullum krafti að endurbótum á fiskimjölsverksmiðju Samherja–Fiskimjöls og lýsis hf. í Grindavík. Meðal annars er verið að steypa fjögur hundruð fermetra gólf í gamla verksmiðjuhúsinu og endurbyggja skilvindusvæðið fyrir nýja soðlýsisskilvindu frá Westfalia. Óskar Ævarsson, rekstrarstjóri Samherja í Grindavík, segir að unnið hafi verið að endurbótum á fiskimjölsverksmiðjunni á undanförnum árum og þær séu nú á lokasprettinum.

Rólegt hefur verið í bræðslunni síðustu daga, en starfsmenn verksmiðjunnar eru þess í stað að vinna að áðurnefndum endurbótum.
Í síðustu viku var mikið um að vera hjá fyrirtækinu þegar skipað var út bæði mjöli og frosnum síldarflökum. Óskar segir að annars vegar hafi verið skipað út um 2700 tonnum af mjöli í MS. Normannes fyrir Bandaríkin, en Normannes er stærsta skip sem hefur lagst að bryggju í Grindavík – 95 metra langt og 19 metra breitt – og hins vegar hafi 1700 tonn af mjöli farið um borð í MS. Svan, sem flytur það til Danmerkur.
Þá var skipað út í MS. Green Atlantic um 1500 tonnum af frystum síldarflökum af Vilhelm Þorsteinssyni EA og Þorsteini EA, sem hafa verið í frystigeymslum Samherja – Fiskimjöls og lýsis hf. í Grindavík.