Útgerðarfélag Akureyringa 80 ára

Fyrsti togari ÚA, Kaldbakur EA 1 kemur til heimahafnar 17. maí 1947. Togarinn var keyptur nýr frá Sh…
Fyrsti togari ÚA, Kaldbakur EA 1 kemur til heimahafnar 17. maí 1947. Togarinn var keyptur nýr frá Shelby í Englandi og var 654 brúttólestir / myndir samherji.is/einkasafn/Minjasafnið á Akureyri

Miðvikudagurinn 14. mars árið 1945 markaði þáttaskil í atvinnusögu Akureyrarbæjar. Þennan dag var boðað til fundar, tilgangur hans var að kanna áhuga á stofnun útgerðarfélags í bænum með það fyrir augum að sækja um skipakaup til Nýbyggingarráðs en umsóknafrestur um slík kaup var við það að renna út.

Ráðuneyti Ólafs Thors vildi nota stríðsgróða þjóðarinnar til nytsamlegra hluta og ákvað meðal annars að endurnýja togaraflota landsmanna.

Þrátt fyrir ríkan áhuga meðal bæjarbúa um að kaupa togara, var deilt um form á slíkum rekstri. Sjálfstæðismaðurinn Helgi Pálsson boðaði til fundarins um stofnun félags og skemmst er frá því að segja að ákveðið var að hefja undirbúning að stofnun útgerðarfélags með þátttöku Akureyrarbæjar. Helgi var kosinn formaður framkvæmdaráðs og síðar var hann kosinn formaður bráðabirgðastjórnar Útgerðarfélags Akureyringa.

Stofnfundurinn haldinn 26. maí 1945

Framkvæmdaráð hófst strax handa, skrifaði bæjarstjórn bréf þar sem falast var eftir hlutafjárloforði. Einnig var sent dreifibréf, sem borið var í hvert hús og bæjarbúar beðnir um að leggja málinu lið.

Formlegur stofnfundur Útgerðarfélags Akureyringa var svo haldinn laugardaginn 26. maí 1945.

Útgerðarfélag Akureyringa er með öðrum orðum 80 ára á þessu herrans ári 2025.

Margir hafa tekið sín fyrstu skref á vinnumarkaði hjá ÚA

Rekstur Útgerðarfélags Akureyringa hefur alla tíð verið öflugur, þótt á ýmsu hafi gengið eins og í öllum atvinnurekstri. Reglulega var hart deilt um starfsemina innan bæjarstjórnar, pólitískar þrætur um ýmis mál er tengdust rekstrinum eða fyrirhuguðum fjárfestingum voru áberandi. Þetta á einkum við um upphafsárin, ekki síst þegar reksturinn var erfiður.

Bjartsýni og baráttuvilji skiluðu félaginu þó áfram.

Staðreynd er að hundruð bæjarbúa hafa tekið sín fyrstu skref á vinnumarkaði og fengið sín fyrstu laun með sumarvinnu hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. Starfsaldur hefur alla tíð verði hár hjá félaginu, sem undirstrikar að um er að ræða góðan vinnustað.

Samherji kaupir ÚA

Samherji keypti eignir útgerðarfélagsins Brims á Akureyri á vormánuðum ársins 2011 en Brim hafði nokkrum árum áður keypt Útgerðarfélag Akureyringa af Eimskip.

Kaup Samherja á ÚA voru þau stærstu innan íslensks sjávarútvegs um langt árabil.

Skrifaði blaðagrein um ÚA aðeins 15 ára

Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja hefur alla tíð haft einlægan áhuga á sjávarútvegi. Faðir hans, Vilhelm Þorsteinsson, var framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa frá 1965 til 1992.

Þegar Kristján var í framhaldsdeild Gagnfræðaskólans á Akureyri skrifaði hann ítarlega grein um stofnun Útgerðarfélags Akureyringa og starfsemi félagsins. Hann leitaði meðal annars fanga úr fundargerðarbókum og aflaði meðal annars upplýsinga hjá Jóni Aspar, sem þá var skrifstofustjóri félagsins. Sjómannablaðið Víkingur birti svo grein piltsins, sem þakti tvær opnur.

„ Ég man ágætlega eftir þessari ritgerð, enda lagði ég töluverða vinnu í öflun gagna. Greinin hefst einmitt á því að segja frá undirbúningsfundinum sem haldinn var 14. mars 1945, þar sem ákveðið var að vinna að stofnun útgerðarfélags. Þótt sjálfur stofndagur félagsins sé 26. mai, er 14. mars merkilegur dagur í atvinnusögu bæjarins. Félagið er sem sagt 80 ára á þessu ári og við ætlum að minnast þessara tímamóta með ýmsum hætti. Minjasafnið á Akureyri mun gera starfsemi félagsins skil og án efa verða fleiri viðburðir í tilefni afmælisins á árinu,“ segir Kristján Vilhelmsson.