Landssamband íslenskra útvegmanna hefur gefið Háskólanum á Akureyri fullkomna neðansjávarmyndavél sem afhent var við hátíðlega athöfn í skólanum í gær. Það var Björgólfur Jóhannsson, formaður LÍÚ sem afhenti Þorsteini Gunnarssyni, rektor Háskólans gjöfina, en í máli hans kom fram að hér er um að ræða afar fullkomið tæki sem skapar byltingarkenndar umbætur á tæknilegri rannsóknagetu neðansjávar.
|
|
Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur lengi haft áhuga á auknum og bættum rannsóknum á lífríki hafsins og áhrifum veiðarfæra á það. Á umliðnum árum hefur átt sér stað samvinna milli útgerðarfyrirtækja og fyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi á einn eða annan hátt á ákveðnum sviðum. Má þar sem dæmi nefna samstarf Samherja og Erlends Bogasonar kafara á þessum vettvangi sem, ásamt tilvist auðlindadeildar Háskólans á Akureyri, hefur að nokkru lagt grunninn að þessu verkefni.
Það tæki sem hér er um að ræða er ekki aðeins neðansjávarmyndavél, þ.e. tæki sem getur tekið sjónvarpsmynd neðansjávar, heldur er einnig um að ræða stýribúnað, kapal og farartæki sem auk myndavéla getur borið margvísleg önnur mælitæki. Fjarstýrðir griparmar gera mögulegt að taka sýni með mun markvissari hætti en ella. Þessi búnaður nýtist þannig til að sjá og heyra og aðhafast. Þau tækifæri sem tæknibúnaðurinn skapar snertir ekki aðeins veiðafærarannsóknir, heldur einnig aðrar rannsóknir sem gerðar eru á hafinu og lífríki þess.
Notkunarmöguleikar og nýting neðansjávarmyndavélarinnar eru miklir. Þannig mun hún nýtast við beinar athuganir á kyrrstæðum veiðarfærum, bæði til rannsókna á tæknilegum atriðum sem og rannsóknum á atferli fiska. Hún mun einnig nýtast við beinar athuganir á togveiðarfærum og við rannsóknir á kjörhæfni togveiðarfæra sem og annarra veiðarfæra, sem ekki aðeins varðar stærðarflokkun eða útskil á tegundum, heldur einnig rannsóknir á því hvort þeir einstaklingar sem ekki eru teknir, skaðast af því að lenda í veiðarfærum.
Vélin mun koma að góðum notum við rannsóknir á umhverfisáhrifum veiðarfæra, þar sem mikilvægt er að geta séð og metið þau áhrif sem veiðarfæri hafa á lífríkið.
Þá mun tækjabúnaðurinn nýtast við nýsköpun í veiðitækni, rannsóknir á líf- og vistfræði nytjafiska, sem eru mikilvægar fyrir allar líf- og vistfræðilegar rannsóknir á botndýrum, hegðun fiska í villtum fiskitorfum, t.d. nytjafiska eins og þorsks, ýsu, lúðu, loðnu og fleiri tegunda. Þessar rannsóknir gagnast t.d. við að hanna heppilegustu veiðarfærin og eykur skilning á vistfræði nytjafiska. Þá skapar myndavélin möguleika á að athuga atferli sjávarspendýra, svo einhver dæmi um notkunarmöguleika séu nefnd.