Veiðar ganga vel í Barentshafi

Baldvin NC 100
Baldvin NC 100
Skip sem gerð eru út af dóttur og hlutdeildarfélögum Samherja erlendis hafa verið að veiða vel í Barentshafi.  Samanlögð framleiðsla þeirra fjögurra skipa sem um ræðir nam í síðustu viku nálægt 350 tonnum af frystum afurðum,  að stærstum hluta þorskafurðum.

Norma Mary, sem gerð er út af skoska útgerðarfélaginu Onward Fishing Company, hóf veiðar í Barentshafi 20.janúar s.l. Framleiðsla skipsins í síðustu viku nam samtals um 75 tonnum af afurðum.

Skip Deutsche Fischfang Union, Kiel og Baldvin, hafa einnig verið að veiðum í Barentshafi frá sama tíma. Framleiðsla Kiel í síðustu viku var um 85 tonn af afurðum og  Baldvin framleiddi nálægt 90 tonn af frystum afurðum.  Heildarframleiðsla þessarra þriggja skipa nam því um 250 tonnum í síðustu viku. Reiknað verðmæti afurðanna er nálægt 100 milljónum íslenskra króna.

Að sögn Brynjólfs Oddssonar, skipstjóra á Kiel, hafa veiðarnar aðallega verið stundaðar á stóru svæði vestur af Tromsö í norður Noregi og er fiskurinn stór, fallegur og góður til vinnslu.  Veður hefur verið ágætt og skipum á svæðinu farið fjölgandi en Brynjólfi taldist til að um 25 skip væru að veiðum á þessum slóðum.

Akraberg, sem gert er út af Framherja í Færeyjum hefur einnig verið að veiðum í Barentshafi og hefur, líkt og áðurnefnd skip, aflað vel. Framleiðsla þess nam samtals um 100 tonnum í síðustu viku og er því heildarframleiðsla þessarra skipa, sem nú stunda veiðar í Barentshafi, nálægt 350 tonnum í síðustu viku eingöngu.

Þess má geta að nú er Víðir EA um það bil að hefja veiðar í Barentshafi, en skipið lagði úr höfn á Akureyri laugardaginn 7. febrúar.