Veiðar í Barentshafi hafa gengið vel

Samkvæmt Haraldi Grétarssyni framkvæmdastjóra Deutsche Fishfang Union GmbH í Þýskalandi, hafa veiðar gengið vel í Barentshafi að undanförnu.  Skipin hafa verið að landa eða eru á landleið eitt af öðru með góðan afla.
kiel_heimas_0303
Þessi mynd var tekin þegar Kiel landaði á Akureyri sl.haust. Ljósm. Myndrún

Baldvin NC100 hélt til veiða 14.janúar og er von á honum til Cuxhaven á fimmtudaginn, með 480 tonn af frystum afurðum.
Kiel NC hélt til veiða 14.janúar og er væntanlegur til Akureyrar í lok næstu viku með tæp 700 tonn af frystum afurðum og um 200 tonn af mjöli. Norma Mary sem gerð er út af Onward Fishing Company í Bretlandi hélt til veiða 22.janúar og er einnig von á henni til Akureyrar í lok næstu viku með tæp 400 tonn af frystum afurðum.
Björgvin EA 311 sem gerður er út frá Dalvík landaði í Sortland í Noregi um liðna helgi 270 tonnum eftir rúmlega mánaðar úthald í Barentshafi. Akrabergið FD sem gert er út af Framherja aps. í Færeyjum fór á veiðar 16.janúar og er á leið til Færeyja með um 450 tonn af frystum afla sem veiddist í lögsögu Noregs og Rússlands.
Samtals eru skipin að landa um 2.500 tonnum af afurðum og er aflaverðmætið áætlað um 800 milljónir kr.
Þá má einnig geta þess að Högabergið er að landa í Noregi í dag um 1.850 tonnum af loðnu sem veiddist við Noreg.  Áður var skipið búið að landa 2.150 tonnum af loðnu úr sinni fyrstu veiðiferð við Ísland.